Dröfn Vilhjálmsdóttir -Eldhússögur

03 Jun 2014

Dröfn Vilhjálmsdóttir heldur úti blogginu www.eldhussogur.com Þar er hægt að finna tugi uppskrifta af öllum tegundum af mat.
Síðan hennar er falleg með glæsilegum myndum, vel skipulögð og persónuleg.

Ég fer reglulega inná bloggið hennar ef ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn eða til þess að fá innblástur.
Eitt af því besta sem ég hef smakkað af síðunni hennar var þegar tengdamamma bauð mér í ofnbakaðan þorsk með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu. 
Uppskriftina má finna inná heimasíðunni.En ég fékk að spyrja hana nokkura spurninga um hana sjálfa og bloggið hennar.
 

Hefur þú alltaf haft gaman að eldamennsku?

Já, ég byrjaði ung að fást við eldamennsku og bakstur og það hefur alltaf legið vel fyrir mér. Fyrir utan það að hafa ánægju af því að elda og baka þá finnst mér mikilvægt að borða bragðgóðan og hollan mat, það er í raun mín helsta hvatning í eldhúsinu. Það er hægt að gera svo ótrúlega góða matrétti á einfaldan hátt og mér finnst því lífið alltof stutt til þess að borða vondan mat.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?

Þetta er svolítið eins og að gera upp á milli barnanna sinna! Mér finnst eiginlega flestir matrétttir góðir ef þeir eru vel matreiddir. Hins vegar verð ég að viðurkenna að fátt slær út góðri nautasteik og eins er hægt að útbúa himneskt góðar máltíðir úr fisknum okkar.

Hver eru uppáhalds hráefnin þín?

Ferskur mozzarella ostur, ferskt kóríander, fullkomlega þroskað mangó, avókadó. Ef ég sé eitthvað af þessum hráefnum í ísskápnum hjá mér þá veit ég að það er góð máltíð í uppsiglingu!

Ef þú mættir velja eitt land til þess að borða þig í gegnum, hvaða land væri það ?

Það er klárlega Ítalía! Mig dreymir um matar- og vínferð til Ítalíu og ég vona að úr því rætist sem fyrst.

Af hverju byrjaðir þú að blogga?

Ég les mikið af erlendum matarbloggum og datt í hug að ég gæti kannski bloggað líka. Svo fannst mér þetta frábær leið til þess að halda utan um uppskriftirnar mínar og geta deilt þeim með mínum nánustu. Reyndar er lesendahópurinn orðin svolítið mikið stærri en bara mínir nánustu sem er bara skemmtilegt.

Áttu þér einhverja uppáhalds matreiðslubók?

Ég nota eiginlega bara netið til þess að lesa um mat og skoða uppskriftir. Mér finnst matarblogg einmitt svo skemmtileg því þau eru lifandi svæði þar sem lesendur geta rætt um matinn og uppskriftirnar, þeir geta deilt með sér ráðum og upplýsingum og þannig í raun stöðugt verið að þróa uppskriftirnar áfram. Það er hins vegar ein matreiðslubók sem ég nýti mér oft og það er Matarást eftir Nönnu Rögnvaldar.

Er einhver réttur sem þig hefur lengi langað til þess að elda ?

Það er enginn réttur sem mér kemur til hugar sem mig hefur langað til að prófa en ekki gert enn. Hins vegar myndi ég gjarnan vilja vera rosalega dugleg og snögg að búa til allskonar sushi og heimatilbúið pasta. Þetta er nokkuð sem ég er frekar léleg í að búa til en finnst einstaklega gott.

Hver er uppáhalds veitingarstaðurinn þinn á Íslandi?

Við erum svo heppin að eiga marga dásamlega góða veitingastaði á Íslandi. Ef ég vil borða eitthvað fínt þá finnst mér Grillmarkaðurinn og Sjávargrillið frábærir veitingastaðir. Í hádeginu finnst mér æðislegt að fá mér núðlusúpu með kjúklingi á Noodle Station á Skólavörðustíg. Ef ég er í hollustugírnum þá er Happ eða Gló málið en stundum tel ég mig algjörlega eiga skilið steikarborgarann með bearnaise sósu á Búllunni!Ég bað Dröfn um að hjálpa mér að velja eina uppskrift til að deila með okkur og bað hana um að finna eithvað sem væri sniðugt til að bjóða uppá í heimsókn eða partí og mér leist best á þessa og hlakka ég til að prufa hana.

 

Uppskrift:

  • 1 camembert
  • 2-3 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • grófmalaður svartur pipar
  • flögusalt
  • ca. 1 dl fersk basilka, söxuð smátt
    örlitla ólífuolíu

Camembert osturinn er klofinn í tvennt. Sólþurrkaðir tómatar, hvítlaukur og basilika er dreift ofan á annan helming ostsins og kryddað með salti og pipar auk þess sem örlítið af ólífuolíu er dreift yfir. Hinn helmingurinn af ostinum er lagður yfir og pakkað vel í álpappír. Grillað við meðalhita á grilli í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er farinn að bráðna vel. Borið strax fram með góðu brauði eða kexi.Marta Rún

#food #blogger