Le Bistro

24 Jun 2014

Le Bistro er franskur veitingastaður í Reykjavík, en þú ert ekki lengi að detta beint inn til Frakklands um leið og þú stígur fæti inn.

Le Bistro opnaði 14. Júlí 2013, á sjálfum þjóðhátíðardegi Frakka. Staðurinn er staðsettur á Bergstaðarstræti 12, eða þar sem frú Berglaug var áður staðsett, eigandinn keypti staðinn og breytti honum í Le Bistro.


En hver er eigandinn? Hann er Arnór Bohic, hálfur Frakki og hálfur Íslendingur. Arnór fæddist í Frakklandi en fluttist til Íslands við 3 ára aldur.
Hann var alinn upp við franska matargerð  og veit þess vegna alveg hvað hann syngur þegar kemur að henni.
Arnór ferðaðist mikið út um allan heim þegar hann var ungur og sótti sér innblástur víðs vegar. Hann útskrifaðist úr Hospitality Management frá skóla í Sviss.


Arnór vildi endurspegla franska menningu á staðnum sjálfum og gera hann eins og franskt heimili. Það tókst honum heldur betur því staðurinn er mjög fjölskylduvænn, andrúmsloftið lætur þér líða vel og um leið og stigið er inn er eins og maður sé dottinn til Frakklands.


En hann er ekki einn í þessu, parteigandi með honum er Alexander Jose Pinto da Rocha. Hann er einnig hálfur Frakki og lærður vínþjónn og veit þess vegna allt um vín. Á staðnum eru að sjálfsögu bara frönsk vín sem eru vel valin af þeim báðum.
Þeir vilja meina það að þeir séu með besta húsvínið í Reykjavík.
Ekki nóg með það að þeir séu báðir hálfir Frakkar heldur sóttu þeir til viðbótar þrjá Frakka beint frá Frakklandi til þess að koma og elda á staðnum.
Frakkar sem elda franskan mat á frönskum veitingastað, það gerist sennilega ekki betra.
 

Staðurinn er búin að vera starfandi í heilt ár og gengið vonum framar. Það er mikið í boði og nóg um að velja.
Brunch-inn er eitthvað sem vakti strax áhuga minn þar sem ég er mikill brunch fíkill. Á staðnum er hægt að fá
franskan, enskan og íslenskan brunch og er hægt að fá hann alla daga.
Hægt er að fara hér  inná heimasíðuna þeirra og skoðað matseðilinn.

Einnig bjóða þeir upp á eitthvað sem enginn annar á Íslandi gerir, fondue og raclette. Það er klárlega eitthvað fyrir hópa að gera saman. Við vinkonurnar skelltum okkur ásamt mökum í vikunni í osta, kjöt og súkkulaði-fondue.
Byrjað var á osta-fondue, þar sem ostur í bland við hvítvín og allskonar krydd er í potti og brauðteningum og grænmeti er notað til þess að dýfa ofan í.
Kjötið var næst á dagskrá, nauta- og folaldakjöt var borið fram ásamt meðlæti og þremur "heimagerðum" sósum. Að lokum var það súkkulaði-fondue og þá er alls konar ávextir og sykurpúðar dýft í.
Þetta var allt saman alveg ótrúlega gott og vorum við öll mjög ánægð með þetta. Ég leyfi myndunum bara að tala.

Að fara að kvöldi til eftir mat á kaffihús, hefur lengi verið hefð en það hljómar ennþá betur að fara og fá sér franskan osta- eða kjötplatta parað við rétt franskt rauðvín.

Þessi staður fær allavega topp meðmæli frá mér og mæli ég með að þú prufir hann, og tala ég ekki um að fara með vinahópnum á fonude.

Marta Rún

#restaurant #lebistro #interview