Snorri eldar föstudagshamborgarann

27 Jun 2014

Ég hef áður talað um hann Snorra og ég er sko ekki hætt. Hér er ein svakaleg uppskrift fyrir helgina af hrikalega girnilegum hamborgara fyrir lengra komna.

 

Hér er greinin sem ég skrifaði um hann rétt eftir að síðan opnaði ef hún fór framhjá ykkur en hann heldur uppi matarblogginu www.snorrieldar.com 

Uppskriftin hér að neðan er eftir hann en hún er tekin beint af síðunni hans og ef þú ert ekki búin að fara inná hana gerðu það þá núna strax.

 

"Hamborgari með beikoni í buffinu, smurður með beikon mayo og toppaður með beikonkurli.  Þykir þér þetta hljóma eins og of mikið beikon?  Ef svo, þá er það rangt hjá þér af því að það er ekki til neitt sem heitir of mikið beikon!"

En öllu gríni sleppt þá er ég ekki frá því að þetta sé sá allra besti borgari sem mér hefur tekist að framreiða og beikon mayoið sló virkilega í gegn hérna heima fyrir svo ég mæli hiklaust með því að þið leggið í þessa beikonveislu.

Brauðin eru líka algjört afbragð.  Þau eru bragðgóð, létt og mjúk en samt saðsöm.
Það saðsöm að ég endaði á því að snerta ekki á frönskunum mínum, sem er alveg vert að hafa í huga.


Hér koma uppskriftirnar!

Fyrir hamborgarabrauðin (8 stk):

1 msk þurrger
1/2 bolli volgt vatn
1/2 bolli nýmjólk
1 egg
2 msk grænmetisolía
2 msk sykur
1 tsk salt
3 bollar hveiti
1 msk bráðið smjör til að smyrja með.

 1. Blandið gerinu og vatninu saman í djúpri skál og leyfið gerinu að leysast upp.
 2. Blandið mjólkinni, egginu, olíunni, sykrinum og saltinu saman í annari skál og hrærið vel saman.
 3. Bætið svo þeirri blöndu út í skálina með gerinu og hrærið vel saman.
 4. Bætið næst hveitinu út í og blandið nógu vel saman til þess að þið getið hnoðað deigið áfram á borði.
 5. Hnoðið deigið í 10 mín eða þangað til það er orðið slétt, nokkuð stinnt og bara örlítið klístrað.
 6. Setjið deigið aftur í djúpu skálina og hyljið með volgum og rökum klút í sirka klukkutíma eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
 7. Færið deigið því næst út á borð og skiptið því í 8 parta, hnoðið í kúlur og raðið á bökunarplötu.
 8. Hyljið aftur með rökum klút en nú í 40 mín.
 9. Smyrjið brauðin að ofan með bræddu smjöri og bakið á 190° í sirka 15-18 mín, eða þar til brauðin eru orðin gullin.

  

Fyrir beikon mayoið

3/4 bolli beikonfita (fæst úr 350gr af beikoni)
3/4 bolli repjuolía
2 eggjarauður
1 msk dijon sinnep
2 msk létt mayones
1 msk vatn
Sítrónusafi að smekk
Salt og pipar að smekk
Góð handfylli af beikonkurlinu

Beikonkurl og fita fyrir mayoið og borgarann

Gert úr 350 gr af þykku beikoni.

 1. Skerið allt beikonið í þunna strimla og steikið á meðalháum hita þar til fitan er öll orðin fljótandi.
  Best er að gera þetta í 2-3 hollum.
 2. Hafið sigti yfir hitaþolinni skál og hellið beikoninu ásamt fitunni þangað.  Takið beikonkurlið svo til hliðar og notið fituna í mayoið

 

 1. Blandið olíunni og beikonfitunni saman í ílát sem auðvelt er að hella aftur úr.
 2. Setjið eggjarauðurnar, sinnepið, mayonesið og vatnið í matvinnsluvél og látið hana vinna í 5 sek til að blanda öllu vel saman.  Skrapið svo niður meðfram hliðunum með sleikju.
 3. Látið matvinnsluvélina síðan vinna á meðan þið hellið olíunni/fitunni hægt og rólega út í.  Þið ættuð að sjá blönduna ykkar þykkna hægt og rólega.
  Ég notaði litla vél sem býður ekki upp á að hella úti á meðan hún vinnur svo ég bætti ögn út í, hrærði, bætti svo ögn meira út í, hrærði osfr..
 4. Bætið beikonkurlinu út í og hrærið saman við.
 5. Bætið svo salti, pipar og sítrónusafa út í eftir smekk og hrærið vel saman.
  Passið bara að setja lítið af sítrónusafa í einu

 

Fyrir borgarana:

550 gr nautahakk
1 egg
1/2 bolli fínt brauðrasp
1 teningur af kjötkrafti
1/2 tsk cayenne pipar
1/2 tsk paprikuduft
1/2 tsk svartur pipar
2 hvítlauksrif
2 góðar lúkur af beikonkurlinu
 

 1. Blandið öllu mjög vel saman í djúpri skál og myndið svo 8stk borgara í sömu stærð og brauðin ykkar.
 2. Steikið á meðalháum hita eftir smekk.
 3. Smyrjið brauðin með beikon mayoinu, setjið vel af beikonkurlinu í lokið og setjið svo uppáhalds grænmetið ykkar á botninn.
 4. Njótið!

  

www.snorrieldar.com

Texti og myndir eftir Snorra

Marta Rún

#snorri #blogger #hamburger #food #bacon