Nám erlendis : Anna Kristín

01 Jul 2014

Næsti viðmælandi minn er Anna Kristín sem er nýútskrifaður arkitekt. Anna Kristín Magnúsdóttir er 27 ára gömul, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og flutti síðar til Reykjavíkur og kláraði nám við Tækniskólann í Reykjavík. Hún fluttist búferlum til Danmerkur og kláraði nám við Álaborgarháskólann. Nú er hún flutt til Kaupmannahafnar þar sem hún réði sig í vinnu hjá Danielsen Architecture and Space Planning.

Ég tók púlsinn á Önnu Kristínu um námið og forvitnaðist um hvað væri framundan hjá henni. 

Hver eru þín helstu áhugamál?

Mín helstu áhugamál eru allt sem viðkemur hönnun og tísku. Er dugleg að fylgjast með straumunum heima sem og í Skandinavíu. Íþróttir eru líka alltaf á hliðarlínunni, en það er alið upp í mér og hverfur sennilega aldrei. Einnig finnst mér mjög gaman að ferðast, og þá sértaklega á Íslandi þar sem ég læri alltaf að meta landið og náttúruna betur og betur þeim mun lengur  sem fjarveran við það er.

 

Hvað ertu að gera núna í lífinu?

Í augnablikinu er verið að hlaða rafhlöðurnar fyrir komandi verkefni eftir erfiðan og strembinn, en skemmtilegan kafla. Einnig ætla ég að njóta sumarsins með fjölskyldu og vinum þangað til nýr kafli í lífi mínu mun hefjast en ég byrja í nýrri vinnu þann 11. ágúst í Kaupmannahöfn þar sem spennandi verkefni bíða mín.

 

Hvað lærðiru og hvar?

Það er dálítið skondin saga hvernig ég endaði í Álaborgarháskólanum, en ég vissi ekki mikið um námið þegar ég fékk inngöngu. Ég sótti um í Kaupmannahöfn og Árósum fyrst en sá á blaði þar sem kóðar skólanna voru að Álaborgarháskólinn væri einnig að bjóða upp á nám í Arkitektúr og hönnun. Það má sækja um þrjá skóla á umsóknareyðublaðinu þannig að ég setti Álaborgarháskólann þar inn til að eiga meiri möguleika að komast í nám. Svo í ágúst beið mín stórt umslag frá skólanum þar sem mér var boðin innganga og hafði ég tvær vikur til að staðfesta komu mína. Ég var ekki lengi að taka ákvörðunina eftir að hafa kynnt mér örlítið um skólann en renndi um leið blint í sjóinn. En í dag sé ég ekki eftir því þar sem þessi skóli býður upp á þrjár greinar í hönnun; Arktiektúr, Urban design og Industrial design. Við fengum að prófa allar greinarnar til að sjá við hverja þeirra okkur líkaði best og á 5.önn áttum við að velja okkar sérhæfingu. Hjá mér var ekki spurning um annað en að fara í Arkitektúrinn, en skólinn er verkfræðiháskóli og námið var allt með verkfræðiívafi sem mér finnst mjög mikilvægt og gott að hafa tæknigrunninn bakvið eyrað þegar unnið er að uppsetningu húss og byggingu þess.

 

Hvað var námið lengi?

Námið er 5 ár í allt, 3 ár í BSc og 2 ár í MSc.

 

Var erfitt að taka skrefið að fara út í nám og hver var ástæða þess?

Áður en ég byrjaði í Tækniteiknun var ég nokkuð viss um að ég vildi flytja til Danmerkur og hefja nám þar. Eftir námið hjá Tækniskólanum var ég alveg staðföst á því að koma mér út og læra meira, þar sem námið í Tækniskólanum svalaði aðeins þorstanum á því sem fylgdi í kjölfarið. Þegar bréfið að utan barst neita ég því ekki að það kom smá gæsahúð um mig og spurningin "er ég virkilega að fara að gera þetta?" spratt upp í huga mér, og sé ég ekki eftir þeirri ákvörðun í dag að hafa látið slag standa.

 

Hvað mundirðu segja að væru kostir og gallar við nám erlendis?

Kostirnir eru að þú kynnist sjálfri þér upp á nýtt, verður meira sjálfsörugg og lærir að koma þér á framfæri. Þó  svo að menningin sé nauðalík og á Íslandi er alltaf mikið stökk að koma út í nýtt tungumál, venjur og siði. Ég neita því ekki að það tekur tíma að aðlagast og enn þann dag í dag er ég að kynnast einhverju nýju og spennandi. Þú þarft að hafa viljastyrk, þrjósku og ákveðni til að koma þér á þann stað sem þú vilt enda á og sannfæra sjálfa þig um að þetta er virkilega það sem þú vilt gera. Fyrsta árið sat ég oft uppi með spurninguna: "hvað ertu að gera hérna Anna Kristín, farðu nú bara heim og lærðu þar, þar sem fólk skilur þig og þú aðra" En þá bankaði þrjóskan og viljinn upp á og hvatti mig til þess að halda áfram.

Gallarnir eru sennilega þeir að þú missir af háskólagöngunni á Íslandi ásamt því að kynnast þeim siðum og venjum sem þar eru í hávegum hafðir.. Það hefði verið gaman að prófa að læra á mínu tungumáli og mynda tengsl við fólk á sama starfsvettvangi og ég sjálf.

 

Hvað lærðir þú  um sjálfa þig eftir þessa reynslu?

Ég öðlastist rosalegt sjálfstraust sem kom mér verulega á óvart. Einnig lærði ég mikið um hvernig er að vera útlendingur að heiman, en það er gífurleg reynsla sem á eftir að fylgja mér alla ævi.

 

Hveturðu ungar stelpar sem eru í þeim hugleiðingum að mennta sig erlendis að láta verða af því?

Tvímælalaust! Þetta er hluti af lífi mínu sem hefur mótað mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og ég sé ekki eftir einum degi. Allt nýtt sem þú prófar fer í reynslubankann og geymist um ókomna tíð. Það er líka allt í lagi að koma heim án þess að koma með gráðu eða titil, það er reynslan og upplifunin sem þú færð sem telur svo margfalt meira. Þannig að ég mæli hiklaust með því að ef þú ert  að gæla við að fara í nám erlendis að stökkva á hvert tækifæri sem gefst, því þau koma ekki aftur.

 

Hver er þinn hönnunarstíll?

Ég myndi best lýsa mínum hönnunarstíl sem minimalískum og rólegum. En ég heillast einnig af byggingum sem eru gerðar í samræði við listamann þannig að listin verður hluti af sögu byggingarinnar og meiningu hennar.

 

Hvar sækirðu helst innblástur?

Ég sæki helst innblástur af arkitektasíðum, en ekki beint eftir einhvern sérstakan arkitekt eða listamann. Ég fylgi núinu og horfi á þá hönnun sem er í gangi í dag. En mér finnst alltaf spennandi þegar gömlum hefðum er blandað saman við nýja stíla, eins og ég gerði í lokaverkefni mínu, þar sem ég tók innblástur frá gömlu íslensku torfbæjunum og gæddi nýju lífi. Mér finnst nauðsynlegt að gleyma ekki uppruna okkar og hefðum þrátt fyrir nýjungar.

 

Setur þú þér markmið?

Þú átt alltaf að setja þér markmið, því annars kemstu ekki á þá staði sem þú ætlar þér. Ég set mér markmið en lítil í einu, er komin með drög að framtíðinni en lifi einnig í núinu. Mikilvægt að taka einn dag í einu og njóta hans hið ítrasta.

 

Hver er fyrirmyndin?

Ég á mér ekki eina fyrirmynd, horfi frekar upp til fólks og tek til mín góða siði frá öðrum.  Ég horfi mikið upp til fjölskyldu minnar í hinu daglega lífi en í sambandi við arkitektúrinn finnst mér verkin hans Tadao Ando frábær.

 

Hvernig er týpískur dagur í lífi Önnu Kristínar?

Núna eru dagarnir mjög óreglulegir, en venjulegur dagur hefst með skyri og möndlum og stundum smá hunangi, svona á hátíðisdögum. Svo er hjólað í vinnuna, sem er yndisleg tilfinning! Seinnipartinn er reynt að hreyfa sig og borðaður góður kvöldmatur. Að lokum er slappað af með kæró eða vinkonurnar heimsóttar í iðandi lífi Kaupmannahafnar.

 

Hvað tekur við á næstunni hjá arkitektnum?

Þar sem ég var að ráða mig í vinnu í ágúst er ekkert annað á stefnuskránni en að safna reynslu, því hún gefur ríkulega. Áður en að því kemur er stefnan sett á Íslandið góða til að eyða gæðastundum með fjölskyldu og vinum. Restinni af sumrinu verður svo eytt í kóngsins Kaupmannahöfn í sólinni sem ætti að vera dugleg að láta sjá sig.

 

Hver er draumurinn?

Draumurinn er auðvitað að opna eigin arkitektastofu með eigin hönnun og hugmyndum og það er klárlega ofarlega á markmiðalistanum, því ef það væri ekki þar kæmist ég ekki nálægt því.

 

Hvernig ætlar þú að eyða sumrinu þínu?

Sumrinu verður eytt með fjölskyldu og vinum, bæði í Kaupmannahöfn sem og á Íslandi og endar með frábærri Þjóðhátíð í yndislega Dalnum okkar þar sem sungið verður hástöfum um Eyjuna þeirra meyjanna og peyjanna! 

 

VERK ÖNNU KRISTÍNAR

Lokaverkefnið mitt var sameining leikskóla og eldri íbúða. Þau eru með sameiginleg svæði þar sem leiðir æsku og eldri borgara liggja saman á vissum tímapunktum á degi hverjum. Meginmarkmið þessarar hönnunar er að fá sem mest út úr báðum aldurshópum, þar sem börnin færa þeim eldri orku og þau eldri getað miðlað visku sinni og kunnáttu til barnanna. Þessi þróun á að minnka æskudýrkun og varðveita tungumálið um leið.

Hvað við kemur hönnuninni var innblástur fenginn frá hinum íslensku torfbæjum klæddum nýjum búningi. Það var endurtekið í gegnum alla bygginguna og áhersla lögð á þaklínuna, en hæðir og stærðir á þökunum voru hönnuð í samvinnu við innri rými byggingarinnar. Hönnunin á að gefa notendanum tækifæri á að blandast saman við arkitektúrinn og nota bygginguna sem hluta af iðjum dagsins. Burðarvirkið er einning sjáanlegt til þess að skapa hreinar línur og gefa skilning á uppbyggingu byggingarinnar.

 

1.hæðin sýnir leikskólann, sameiginlegur svæðin og eldri borgara íbúðirnar

Leikstofurnar eru þrjár, allar með klósetti og hvíldarherbergi. En hvíldarherbergið er dimmt herbergi með hús-laga inngangi sem er fenginn frá þakinu.

Lítill íþróttasalur er hluti af leikskólanum og er hann sýnilegur frá sameiginlegu svæðunum. Salurinn er lækkaður um einn metra til að skapa betri tengsl milli leikskólans og sameiginlegu svæðanna ásamt því að færa meira líf inn í húsið.

Yfirlit frá svölum eldri borgara, þarna er góð yfirsýn yfir sameiginlegu svæðin og leikskólann. Tröppurnar milli leikskólans og sameignlega svæðisins tengja notendurna saman. Önnur hver trappa kemur saman í sæti og þar á móti er svið sem hægt er að nota til að koma fram á.

Íbúð eldri borgara.

Yfirlit yfir svæðið, eldri borgara íbúðirnar eru nær, leikskólinn fjær og leikvöllurinn á milli.

Líkan í mælikvarðanum 1:100. Varpar ljósi á innanhúss hönnunina.

Líkan í mælikvarðarnum 1:500. Varpar ljósi á bygginguna og umhverfið í kring.

Anna Kristín gerði sér lítið fyrir og fékk 12 í einkunn fyrir þetta lokaverkefni !

Anna Kristín er hrikalega flott og fyrirmyndar stelpa í alla staði. Ég vil óska henni góðs gengis í framtíðinni og trúi ekki öðru nema að henni eigi eftir að vegna vel í starfi sínu xx

Xo - SARA DÖGG

tengd blogg
#námerlendis #architecture #árangur