SpínatPestóPasta

13 Jul 2014

Þetta er svona réttur sem ég geri þegar ég nenni ekki að elda og þarf eitthvað fljótlegt og gott. Það er reyndar svo mikið sem haugalygi. Þegar ég nenni ekki að elda hendist ég oftast eftir kjúkling á Nandos.

Þessi réttur er samt fínn þegar ég nenni ekki að setja brjálaðann metnað í eldamennskuna. Hráefnin eru fá en góð. Er það ekki langþægilegast? 

Í það þarf þetta spínat pasta eða eitthvað svipað ef þetta er ekki til í búðinni og gott grænt pestó. Græna frá sollu er mjög gott heima. Til viðbótar þarf 2 lífrænar kjúklingabringur, hvítlaukssalt og furuhnetur. 

Ég byrja á að þurrsteikja furuhneturnar og set þær til hliðar. Næst sýð ég pastað og á meðan það er að sjóða steiki ég kjúklingabringurnar á pönnnu sem ég hef skorið í teninga og krydda þær með hvítlaukssalti. Þegar þetta tvennt er tilbúið finnst mér best að henda öllu saman í stóra skál og hræra samanvið eina litla krukku af grænu pestó. Ég er smá saltsjúk svo það fer alltaf aukadass af hvítlaukssaltinu í skálina.

Ef þið nennið gjörsamlega engu er auðvitað tilvalið að kaupa frosið hvítlauksbrauð í pakka og hita það í ofninum með. Ég ákvað hinsvegar að gera mína eigin útgáfu í þetta skiptið. 

Ég keypti nýjar brauðbollur í bakaríinu og smurði yfir þær Garlic&Herb smurostinum frá Philadelphia. Setti það svo inn í ofn í nokkrar mínútur og smurði aftur smáveigis af osti yfir þegar ég tók það út. Ótrúlega gott og fín tilbreyting frá þessu frosna. 

Þetta fær allavega mjög góða dóma hér heima fyrir svo ykkur er óhætt að prófa.

xxx