GulurRauðurGrænn&salt

05 Aug 2014

GulurRauðurGrænn&salt er heimasíða með frábærum uppskriftum.

Hún Berglind heldur uppi síðunni grgs.is sem stendur fyrir GulurRauðurGrænn&salt.

Þar er að finna tugi uppskrifta af frábærum mat. 
Síðan er notandavæn og myndirnar flottar. Hún gaf út fyrir stuttu bókina ,,GulurRauðurGrænn&salt - Fljótlegir réttir fyrir sælkera" sem ég á sjálf og mæli mikið með. Ég heyrði í henni að fékk að spurja hana út í síðuna og bókina.


Hefur þú alltaf haft gaman að eldamennsku?


Að minnsta kosti frá unglingsárum en þá byrjaði ég að prufa mig áfram.
 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Það fer eftir svo mörgu eins og stemmningu, árstíð, veðurfari og skapi, en ef ég ætti að nefna eitthvað eitt að þá myndi ég líklega segja tapas réttir. Ég elska stemmninguna í kringum  tapas, margir smáréttir á borðinu, allir smakka allt og rétta matinn á milli. Gestirnir drekka rauðvín og tala og hlæja hátt. Afslappað og skemmtilegt - eða þannig sé ég að minnsta kosti tapas fyrir mér.
 

Hver eru uppáhaldshráefnin þín?


Ég er algjör sökker fyrir ferskum kryddjurtum sem fá heimilið til að ilma og setja punktinn yfir i-ið á öllum réttum. Basilíka og mynta eru þar fremst í flokki.

 
Ef þú mættir velja eitt land til þess að borða þig í gegnum, hvaða land væri það ?

Um jólin fór ég til Thailands og varð hugfangin af matnum þar, ferskleikanum og fjölbreytninni. Ég á hinsvegar eftir að heimsækja Víetnam og hef heyrt að maturinn þar sé engu líkur. Spánn á svo alltaf sérstakan stað í hjarta mér og ég myndi ekkert slá hendinni á móti ferðalagi þangað....og Grikkland..og Tyrkland og og og ég get eiginlega ekki valið.


Af hverju byrjaðir þú að blogga?


Ég byrjaði að blogga haustið 2012 eftir að ég kom úr ferð frá Barcelona en þar fékk ég dásamlegan mat sem varð síðar innblástur að GulurRauðurGrænn&salt.


Áttu þér einhverja uppáhaldsmatreiðslubók?


Ég nefni þá að sjálfsögðu fyrstu bókina mína, GulurRauðurGrænn&salt - Fljótlegir réttir fyrir sælkera sem kom út fyrir jólin síðast. Að auki finnst mér bókin Jerusalem eftir Yotam Ottolenghi vera dásamleg.

 
Er einhver réttur sem þig hefur lengi langað til þess að elda ? 


Já ég er búin að vera með "craving" í svona "pulled pork" í alltof langan tíma. Það er hér með komið á to-do listann hjá mér 


Hver er uppáhaldsveitingarstaðurinn þinn á Íslandi?


Úff hér er erfitt að velja einhvern einn. Ég fer reglulega til skiptis bæði á Gló og Local í hádeginu og líkar það frábærlega enda báðir með næringarríkan og góðan mat. Á kvöldin hef ég gaman að afslappaðri stemmningu og get óhikað mælt með matnum á Bunk Bar sem og staðnum sem hefur ekkert nafn (Hverfisgata 12). Fyrir skemmtilega bistró stemmningu og dásamlegan mat er það svo veitingastaðurinn Snaps, sem verður oft fyrir valinu.

 

Afhverju ákvaðst þú að gefa út bók eftir að hafa verið með blogg ?

 


Ég fann fyrir miklum áhuga fólks á uppskriftum sem væru einfaldar, með fáum hráefnum og litlu flækjustigi og ákvað því að gera matreiðslubók sem væri þannig. Bókin er hugsuð fyrir fólk sem elskar að borða góðan mat en hefur ekki mikinn tíma til að standa lengi í eldhúsinu - ein fyrir alla ef svo má segja. 

 

 

Ég er fastagestur á síðunni hennar og finn mér reglulega uppskriftir úr bókinni sem er þægileg og með einfaldar og fljótlegar uppskriftir sem allir geta eldað upp úr og svo er hún líka á góðu verði.
Ég læt fylgja nokkrar myndir af girnilegum réttum af síðunni hennar og ef þið ýtið á textann undir myndinni fer hann beint með ykkur á síðuna þar sem uppskriftin er.

Grillaðar tígrisrækjur með hvítlauk

Frönsk súkkulaðikaka með pekanhnetukurli og heitri karmellusósu

Basilkjúklingur með hlynsýrópi og grilluðum fetaosti

Oreo ostakökubitar

Kung pao kjúklingur

Einfaldur rósmarínkjúklingur í parmaskinku

Marta Rún

#interview #food #blogger