Mini "Pottakökur"

15 Sep 2014

Ég gerði eftirrétt í síðasta matarboði hjá mér í Mini Le Creuset pottunum mínum.

Ég keypti þessa litlu potta þegar ég var í París fyrr á árinu og hef notað þá nokkrum sinnum. Þeir eru góðir fyrir alls konar for- og eftirrétti.
Það er svo fallegt að bera fram í þessum pottum og til er mikið úrval af mismunandi litum.
Ég á í þessum litum sem eru hér fyrir neðan.
Ég gerði æðislega súkkulaðiköku sem ég fann á heimasíðu Le Creuset og hérna er hún.

 

 

Uppskrift fyrir fjóra í fjögur form:

200 grömm dökkt súkkulaði

170 grömm smjör

4 eggjarauður

4 egg

1/2 bolli sykur

2/3 bollar hveiti

Börkur af einni appelsínu.

 

Hitið ofninn í 180° og smyrjið fjögur form með smjöri og dustið smá hveiti yfir.

Yfir vatnsbaði bræðið súkkulaðið og smjörið saman og kælið svo við stofuhita.

Setjið öll eggin í skál, þeytið saman og hellið síðan sykrinum hægt og rólega við. Þeytið í 5 mínútur þangað til eggin hafa nánast þrefaldast í stærð og blandan orðin ljósgul.

Hellið súkkulaðiblöndunni saman við hægt og hrærið í rólega með sleif í leiðinni.

Hellið svo hveitinu í litlum skömmtum í einu og blandið vel saman.

Að lokum setjið þá appelsínubörkinn í blönduna en skiljið smá eftir til að nota sem skraut á kökuna þegar hún er tilbúin.


Bakið í 12-15 mínútur. Þetta er ekki svona blaut súkkulaðikaka en miðjan á ekki að vera hrá heldur mjúk.

Berið fram í formunum með kakó, flórsyrkri og/eða afgangnum af appelsínuberkinum.

 

Le Creuset pottarnir fást í Líf og List í Smáralind.

 

Marta Rún

#chocolate #cake #recipe #food