Nýjungar frá L'Oréal

05 Nov 2014

L’Oréal finnst mér alltaf vera að koma mér á óvart. Nú þegar eru ákveðnar vörur frá merkinu sem ég hef notað í langan tíma eins og True Match farðinn og Voluminous carbon black maskarinn og þær verð ég alltaf að eiga í mínu kitti. Núna var önnur vara frá þeim að bætast í þann hóp en það er Advansed Serum sem er úr Skin perfection línunni þeirra. 

Ég hef alltaf keypt mínar vörur úr þessari línu erlendis en sem betur fer eru þær nýkomnar til landsins svo ég get nálgast þær hér næst þegar þess þarf. 

Þegar ég prófa nýjar húðvörur þá er ég alltaf að leita eftir því að sjá hvað þær geri fyrir mig því ef ég sé engan mun þá finnst mér lítill tilgangur í því að nota þær. Þess vegna er ég svo spennt að segja ykkur frá þessu serumi sem ég er nú þegar búin að kaupa tvisvar sinnum og það þarf mikið til þess að manneskja eins og ég sem er alltaf að prófa nýja hluti kaupi sama hlutinn tvisvar.

Ég var ótrúlega fljót að sjá mun á húðinni minni eftir að ég byrjaði að nota serumið og þá aðallega á áferð húðarinnar. Ég hef verið með ójöfnur í húðinni sem hafa myndast yfir langann tíma og eru kannski ekki vel sjáanlegar en meira áþreyfanlegar. Mér fannst eiginlega ótrúlegt að sjá muninn eftir að ég byrjaði að nota þessa vöru og ég hreinlega get ekki án hennar verið núna. Serumið einhvernveginn jafnar út áferð húðarinnar og gerir hana silkimjúka. Ég var líka að glíma við örmyndanir vegna húðvandamála og ég sá mjög sýnilegan mun á þeim vandræðasvæðum. 

Skin perfection línan er gerð fyrir aldurshópinn 20-30 ára og er ætlað að betrumbæta útlit húðarinnar og gæði hennar. Einnig er sagt að svitaholur eigi að verða nær ósjáanlegar og húðtónninn á að verða jafnari með notkun serumsins. Mér finnst L’Oréal alveg hitta naglann á höfuðið með þessari lýsingu. Ég get allavegana staðfest að í mínu tilfelli átti þetta allt saman við.

Í þessari línu er einnig að finna rakakrem og augnkrem sem ég er nýbúin að fjárfesta í. Ég er ekki komin með nógu mikla reynslu á þær vörur til að segja næginlega vel frá þeim en hingað til þá lofa þær góðu!