Júlíana Sól & NORR 11

22 Jan 2015

Júlíana Sól er búin að vera búsett í New York síðastliðin 4 ár en er nú komin heim. Þar lærði hún Strategic Design and Management í listaháskólanum Parsons The New School for Design.  Hún segir námið í raun viðskiptanám í hönnunarskóla og kennir allt hönnunarferlið og viðskiptahliðina á því líka sem var mjög þroskandi. Stór hluti af því að vera í svona námi er starfsnám og byrjaði hún á því að vera hjá Andreu Maack Parfums yfir eitt sumar, og síðan í hálft ár hjá The Journal Gallery í Brooklyn og á síðustu önninni sinni starfaði hún hjá Finn New York sem hannar hágæða skartgripi.  


NORR11 er ungt merki sem að leitast við endurhugsa klassíska skandinavíska hönnun og framleiða falleg og endingargóð húsgögn á góðu verði. Hönnuðir fyrirtækisins leggja áherslu á að nota nátturuleg efni í framleiðslu og vinna með handverksfólki víða um heim. Stíllinn er einfaldur skandinavískur stíll í bland við grófari stíl frá suðaustur-Asíu. Vöruúrvalið spannar allt frá litlum smávörum og ljósum uppí stærri húsgögn eins og hægindastóla og sófa. 

Hönnuðurnir eru nokkir en yfirhönnuðurinn er Daninn Rune Krøjgaard. Rune er fæddur 1980 og útskrifaðist úr Royal Danish Academy of Fine Arts. Hann sækir mikinn innblástur í iðnað og sækist eftir því að sjá nýja möguleika í því sem fyrir er. Hann leggur jafn mikla áherslu á að húsgögnin séu þægileg og að þau séu falleg sem endurspeglast í hönnun hans. Auk hans hafa nokkrir aðrir hönnuðir unnið með NORR11 og þar á meðal Íslendingurinn Dögg Guðmundsdóttir. Dögg býr og starfar í Kaupmannahöfn en hún hannaði Sit kollinn sem er ein af vinsælustu vörunum NORR11. 


Draumastólinn þinn - 
Bibendum Chair eftir Eileen Gray

Telur þú að það hafi orðið vitundarvakning hjá fólki um hönnun & húsgögn með öllum samskiptamiðlunum og bloggunum -  
Alveg klárlega. Maður sér sérstaklega hjá ungu fólki að það hefur mikinn metnað fyrir heimilinu sínu og margir farnir að þekkja hönnuði og merki vel. Ég sakna þess þó stundum að sjá persónulegri stíl í stað þess að allir keppist við að eiga nákvæmlega eins og er í öllum blöðum og á bloggum. Það er svo gaman að koma inn á heimili þar sem maður sér persónulegan stíl hvers og eins skína í gegn. Það er kannski ekki allt það nýjasta af Pinterest en það er það sem gerir heimili að heimili.

Ætlið þið að taka þátt í hönnunarmars -
Já við verðum með á Hönnunarmars og erum að skipuleggja nokkrar uppákomur. Við verðum líklegast með Pop-up sýningu í samstarfi við erlenda listamenn hérna í rýminu hjá okkur. Stefnan er svo að fá hönnuði NORR11 til að hafa smá fyrirlestur í vikunni á undan þannig að áhugafólk um húsgagnahönnun geti komið og fengið að skyggnast inn í hugarheim hönnuða NORR11. Við erum alltaf til í að heyra í hönnuðum eða fyrirtækjum sem vilja kynna vöruna sína hér hjá okkur og stefnan er að hafa rýmið eins lifandi og hægt er með reglulegum viðburðum.

SARA SJÖFN