Heilsuþema

18 Feb 2015

Ég er dugleg að elda og finnst mjög gaman að borða en finn hvað hreyfing er nauðsynleg og þarf að haldast í hendur við það sem ég geri.

Ég ætla að vera með smá heilsuþema inná milli í mínum skrifum.

Ég vona að þið misskiljið mig ekki og haldið að héðan í frá ætli ég mér að koma með endalausar umfjallanir um æfingar –og matarprógram. Mig langar hinsvegar að deila með ykkur fjölbreytta, einfalda og holla rétti búna til úr fersku hráefni meðal annars úr þeytingum, sósum og salati. Mig langar líka til þess að taka viðtöl við skemmtilegt folk varðandi heilsu ásamt öðru því sem tengist heilsu.

Mín hugsun varðandi lífið er að allt sé gott í hófi og aðalatriðið sé að fá ekki samviskubit yfir mat eða drykk, eða hvort ég hafi ekki komist á æfingu. Einn hollur réttur á viku gerir þig ekki hollari, þá er það sama að segja um að einn hamborgari í viku gerir lífið ekki óhollt. Ég reyni að mæta tvisvar til þrisvar sinnum í viku í ræktina en ef ég kemst ekki þá er það enginn heimsendir. Mér þykir ekki gaman að að vera með þetta á heilanum en um leið þá er mikilvægt að hugsa um heilsuna, á heilbrigðan hátt.

Ég tek ekki inn nein fæðubótaefni, myndi aldrei gera það og er sannfærð um að við getum fengið öll þessi vitamin, protein og annað úr fæðunni. Í vikunni var umræða hjá Kastljósi þar sem fjallað var um fæðubótaefni, blekkingar í þeim efnum og þá staðreynd að þau væru í raun óþörf fyrir flesta og hægt að fá efnin úr fæðunni. Mér finnst mikilvægt að elda úr ferskum hráefnum og reyna að nota sem minnst af unnum vörum.

Ég mæti oftast í World Class út á nesinu því það er nálægt Háskóla Íslands. Ég elska að koma við í Systrasamlaginu sem er fyrir utan WC og fá mér smúðí eins og þær kalla það eftir æfingu eða ef ég er meira þreytt en vanalega að fá mér Indígókaffi.

 


Ég hef áður kynnt Systrasamlagið en ef það fór framhjá ykkur þá getið þið lesið greinina hér.

Ég sagði þeim að mig langaði til þess að taka myndir af þeim söfum og skotum sem þær bjóða upp á. Þær tóku vel í það að gefa mér upp eina uppskrift af safa sem er nýkominn í búðina til þeirra og ég fékk leyfi að fá að birta það hér á síðunni.
Mér finnst hann rugl góður!!

Mangó-Gojiberja-Chilli Súpersmúðí

"Kaldur að utan en heitur að innan."

2 og 1/2 bolli frosið mango

3 msk hempfræ (mjög próteinrík, fást í flestum matvörubúðum)

2 msk gojiber

1 tsk chilli

1 og 1/2 bolli eplasafi

1 bolli vatn

1/2 lime 

(mátt sæta með hunangi)

"Byggir upp innri hita og eykur athafnargleði. Góður fyrir ónæmiskerfi,hjarta og æðakerfi. Safinn inniheldur meira en 20 vítamín og steinefni.

 

Ég fæ mér oft kaffi fyrir æfingar þegar ég er þreytt. Á mánudögum er Indígókaffi sérstaklega gott enda vinsælasti kaffidrykkurinn hjá Systrasamlaginu.

Það er tvöfaldur expresso, ghee, kókosolía, bourbon vanilla og lucuma.
Heldur koffínorkunni virkri í allt að sex tíma.
Ég mana ykkur til þess að smakka þetta, hef aldrei fundið fyrir jafn mikilli orku á æfingu! 

En ég vona að þið eigið eftir að taka vel í þetta heilsuþema inná milli með komandi vori.

Marta Rún

 

P.S hver er uppáhalds djúsinn ykkar???