Prosciutto-vafðar kjúklingabringur

03 Mar 2015

Þessa uppskrift fann ég á heimasíðunni hans Jamie  Oliver eins og svo margar aðrar og ég mun 100% gera hana aftur.


Uppskriftin er sem sagt af fylltum Prosciutto-vöfðum kjúklingabringum ásamt sveppasósu.

Ég eldaði bara tvær bringur en það er gert ráð fyrir fjórum í uppskriftinni.

 

Fyrir fyllinguna þarftu:

50 g brauðrasp

50 g rifinn ostur

100 g spínat

Byrjar á því að blanda saman raspinu og rifna ostinum.
Sýður vatn í potti og hellir spínatinu í pottinn og sýður það í u.þ.b. 3 mínútur og hrærir í á meðan. Síðan helliru spínatinu í ískalt vatn eða í sigti og ferð með það undir kalt vatn og kælir, kreistir síðan vökvann vel úr, saxar smátt og blandar við osta- og raspblönduna.

Því næst legguru hendina yfir kjúklingabringuna, tekur hníf og skerð varlega smá í hliðina á henni og býrð til vasa.
Í vasann fylliru bringurnar með fyllingunni.

Síðan notaru skinkuna til að vefja utan um kjúklinginn, ekki hafa áhyggjur ef hún er ekki að festast nógu vel, hún gerir það þegar við steikjum hana.

Kveiktu undir pönnu á meðalhita og steiktu hverja hlið í nokkrar mínútur eða þangað til að skinkan hefur aðeins tekið á sig brúnan lit.

Hérna eru þær tilbúnar til að fara inn í ofninn.
Settu þær í ofninn í 25 mínútur.

Notið sömu pönnuna til að steikja sveppina til að fá saltið og góða bragðið í sveppina 

 

Í sósuna þurfið þið:

1 lauk

1 hvítlauksgeira

100 g sveppi (ég notaði kastaníusveppi)

1 matskeið smjör

125 ml rjómi

1 teningur kjúklingakraftur

Ég átti ferskt thyme sem ég setti með í sósuna en það er alls ekkert nauðsynlegt.

 

Steikið sveppina og laukana á pönnunni í nokkrar mínútur, hellið síðan rjómanum út í og hrærið. Bætið kjúklingakraftinum við ásamt pipar og smakkiði til.

Ef það var einhver afgangur af fyllingunni þá er gott að setja hana ofan á kjúklinginn síðustu tíu mínúturnar af elduninni til að fá smá extra crunch.

Ég var með sæta kartöflumús með basiliku, salti og pipar með réttinum. Það passaði mjög vel saman.

Ég vona innilega ykkar vegna að þið prufið þennan rétt.

 

Marta Rún