Uppfærðu baðherbergið í ódýrum & fáum skrefum

28 Apr 2015

Auðveldar og ódýrar leiðir til að lappa upp á hvaða baðherbergi sem er og ég vona að þetta nýtist ykkur vel. 


- Skiptu út baðmottunni og handklæðunum, sérstaklega ef þau eru upp á við og sýnileg þá er fallegra að hafa þau í eins lit. 

 

- Dempaðu ljósin. Ef þú hefur tök á því þá mæli ég með dimmer inn á bað - bara rétt lýsing getur skapað allt annað andrúmsloft. Sérstaklega hlýlegt og kósý að kvöldi til en auðvitað viljum við hækka alla birtu í botn þegar sminkunin fer fram. Ef þú ert hins vegar í leiguhúsnæði þá mæli ég með fallegum borðlampa og kertaljósum. 

 

- Talandi um kerti, þá ættu ilmkerti að vera til staðar á öllum baðherbergjum. Ég mæli með Völuspá kertunum - ekki nóg með að þau séu ilmandi góð þá eru umgjörðirnar svo ótrúlega fallegar að hægt er að nota þær á marga vegu eftir að vaxið klárast. Ef þú ert ekki mikið fyrir kerti þá mæli ég með ilmolíum. Uppáhalds mínar eru frá Zara Home og Völuspá. 

 

- Það er algjör synd hversu margir gleyma persónulegu hlutunum inn á baðherbergið miðað við hversu miklum tíma maður eyðir þar, þá ættu hlutir eins og innrammaðar myndir og málverk að vera upp á veggjum til að ramma rýmið inn og gera það hlýlegra. 

 

- Ef þú hefur auka pláss, prófaðu að koma fyrir auka sæti fyrir eins og fallegum stól eða skemil. Svo notalegt að tylla sér þar eftir þvottinn og maka á sig kremin. 

 

- Raðaðu snyrtivörunum þínum fallega. Ódýr box eins og plexi boxin vinsælu færðu í Tiger og Söstrene Grene. Snyrtivörur úr gleri eins og ilmglösin, fljótandi farðinn og glerkrúsir með eyrnapinnum/bómullum í er hægt að raða ofan á glerdisk með fæti (kökudiskur úr Ikea) eða á bakka. Kemur einstaklega fallega út - Glerhlutir inn á bað gefa lúxor og rómantík.

 

- Bættu við plöntum eða blómum. Það hjálpar til við að hreinsa loftið og gefa í leiðinni lit og persónuleika í rýmið. Það ætti ekki að vera erfitt að halda þeim á lífi þar sem allur rakinn gefur þeim extra búst - Gott ráð fyrir þær sem eru ekki með græna fingur. 

 

- Ef þú ert með bað þá veistu hversu mikið pláss það tekur og hversu auðvelt augað rekur strax á það. Þess vegna er baðbakki málið, bakki sem liggur yfir baðið, er færanlegur og sem má auðvitað blotna. Á hann geturu komið fyrir baðsaltinu, baðburstanum, kertaljósi og jafnvel góðri bók og glasi af rauðu fyrir næstu kósý baðstund. Aaaah.. Ef þú finnur ekki slíkan bakka í búðum þá eru mörg DIY á netinu sem ættu að vera auðveld að gera og passa þá fullkomlega fyrir þitt bað. 

 

- Að lokum.. þá er alltaf hægt að uppfæra spegilinn fyrir ofan vaskinn, innrammaðir speglar gera meira finnst mér en einungis speglaflísar eða speglaskápar. Ég er mjög hrifin af hringlaga speglum inn á baðherbergi.  

Eins og með allt þá er Pinterest alltaf með svörin og innblásturinn þegar kemur að breytingum, stórum eða litlum svo að ég mæli með að þið skoðið ykkur áfram og pinnið hugmyndir áður en farið er í verkið - Það hjálpar alltaf til við að fá heildarmyndina. 

__________

Gangi ykkur vel & góða skemmtun 

Xs

#diy