Áslaug Arna - árangursviðtal

03 Jul 2015

Viðtal sem að fær mann til að hugsa

 

Eins & hefur komið fram svo oft áður þá er ég algjör perri þegar það kemur að því að vita hvernig fólk nær árangri & afhverju annað fólk uppsker oft meira en kannski einhver annar. Ég pæli mikið afhverju hegðar þessi sér svona, hvað er á bakvið það. Þess vegna bjó ég til þennan spurningalista sem er stútfullur af spurningum sem að fá mann til að hugsa & oft sýnir einlæga hlið af fólki

Ég hef mikið verið að spá í því að hætta að senda spurningar & mæta bara heim til fólks & leyfa þeim að tjá sig í myndbandsformi, hvernig myndi ykkur lýtast á það kæru lesendur?

En ég fékk allra flottustu dömuna til mín í spjall & það er engin önnur en Áslaug Arna góð vinkona mín. Ef það er einhver manneskja sem að mér þykir áhugaverð þá er það hún, fólk spáir því að hún nái góðum árangri ef að hún myndi bjóða sig fram í forseta embættið & er það ekki af ástæðulausu, hún er stórmögnuð kona. 

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er 24 ára laganemi við Háskóla Íslands & lögreglumaður á Suðurlandi á sumrin. Áhugamálin hennar eru fjölmörg m.a. stjórnmál, hestamennska & félagsstörf 

 

 

Hvað myndi þig langa að gera ef að peningur væri ekki hindrun?

Ferðast um allan heiminn & vinna við fleiri ólaunuð verkefni.

 

 

 

Ertu að gera eitthvað af því sem þú sagðir hérna fyrir ofan?

Ég reyni að ferðast eins & ég get & er dugleg að taka að mér ýmis skemmtileg ólaunuð verkefni sem þó eins & áður sagði mættu vera fleiri. 

 

Áslaug að fagna því að hafa unnið ræðumaður lagadeildar 2014 

 

Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði, hvaða orð myndir þú velja?

Hávær.

 

 

Hver er Áslaug Arna?

Hún er skipulagður einstaklingur sem finnst ekkert skemmtilegra en að njóta lífsins & gera hvað mest úr hverjum einasta degi að stundum ræður hún ekki einu sinni við það.

 

 

Hefuru alltaf vitað hvert þú stefndir í lífinu?

Nei, en ég hef lengi haft áhuga á að breyta einhverju svo ég skilji eitthvað eftir mig þegar líf mitt klárast, það þarf ekki endilega að vera eitthvað mikilfenglegt, það er líka gott að geta skilið eftir sig einhverja gleði & ánægju. 

 

 

Setur þú þér markmið?

Já ég geri það reglulega, það hjálpar manni að einblína á það sem maður vill einbeita sér að & halda sig við það. Markmiðin þurfa þó ekki alltaf að vera þess kyns að maður eigi að ná einhverju eða gera eitthvað. Það er nefnilega líka markmið fyrir marga að gera minna eða gera einfaldlega meira af því sem þú nýtur þess að gera. 

 

 

Hvernig líður þér þegar þú nærð þessum markmiðum?

Það er alltaf gott að ná markmiðum sínum & mikilvægt að setja sér þá ný. Ég held að flestir sem setja sér markmið finni fyrir sigurtilfinningu þegar þeir ná markmiðum sínum, það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að ef maður nær ekki markiðum sínum þýðir það ekki að maður sé ekki þess verðugur, það skiptir því máli að setja sér skammtímamarkmið & taka mið af aðstæðum þínum hverju sinni. Einnig set ég mér oft sama markmiðið oft, því ég kannski næ því ekki, í fyrstu var það kannski óraunhæft, síðan getur ýmislegt komið uppá, en það verður alltaf rosalega gott að ná því þegar að því kemur.

 

 

Hvað viltu fá útúr lífinu & afhverju?

Ég vil fá gleði & eins & fyrr sagði geta skilið eitthvað eftir mig. Ég hef áttað mig á því að það er það mikilvægasta að njóta lífsins & þeirra daga sem maður fær, það er því nákvæmlega það sem ég vil fá útúr lífinu. 

 

 

Hver er þín stærsta hindrun?

Ég á oft erfitt með að líta á hluti sem hindrun, ég horfi frekar á hjalla sem verkefni & áskoranir. En ætli stærsta hindrunin mín sé ekki að eiga það til að hafa ekki trú á sjálfri mér í einstaka málum, ég reyni þó eftir fremsta megni að þurrka þá hindrun í burtu enda tóm þvæla. 

 

 

Hverjar eru þínar fyrirmyndir?

Ég á mér margar fyrirmyndir, reyni sérstaklega að tileinka mér það sem mér þykir mikið til koma hjá mörgum einstaklingum, þ.a.s það sem ég met mest í fari einstaklinga. Það eru svo margir fyrirmyndir á mismunandi hátt. Mamma mín var mér einstök fyrirmynd allt mitt uppeldi & er það enn, ég minnist hennar sem sérstaklegrar öflugrar konu sem tókst á við verkefni sín með einstaklega jákvæðum hætti. Hún var dugnaðarforkur sem sinnti svo vel vinum & fjölskyldu, það er mikil fyrirmynd í því.

 

 

Að hve miklu leyti mótar þú eigin örlög, & hversu mikið af því er óákveðin örlög? 

Það er svo mikið af óákveðnum örlögum sem maður verður að spila úr á lífsins leið, hvernig sem þú spilar úr því sem þú færð í hendurnar mótar þú svo þín eigin örlög. 

 

 

Ef þú gætir gefið ungbarni eitt ráð, hvert myndi það ráð vera?

Síendurtekna ráðið mitt: Njóttu hvers dags, því þú veist ekki hversu margir þeir verða.

 

 

Ef þú gætir talað við þig þegar þú ert 5 ára hvaða ráð myndir þú gefa sjálfri þér & hvað myndiru segja?

Elskaðu sjálfa þig skilyrðislaust. 

 

Hvað er sönn hamingja?

Sönn hamingja er þegar þú ert að njóta lífsins, ert ánægður með hvern dag & umkringdur dýrmætu & jákvæðu fólki.

 

Hvaða hlutir eru það sem halda aftur af þér að gera hlutina sem þig langar virkilega til að gera?

Tímaleysi! Mig langar að gera svo óskaplega marga hluti að ég myndi helst vilja fleiri klukkutíma í sólarhringnum. En þeir eru ófáanlegir & því er svo mikilvægt að forgangsraða rétt, taka þau verkefni sem eru nauðsynleg & sem þig langar að fast við, en sleppa hinum. 

 

Hvað myndiru segja að væri fegurð?

Hamingja & bros

 

Ef þú myndir vakna á morgun & ekki vera hrædd við neitt hvað myndiru gera öðruvísi? 

Ég vona að ég hagi lífi mínu ekki á einhvern hátt vegna hræðslu á einhverju, en mögulega þá hræðslan við það að mistakast & hræðslan við að tapa. Ég hef aftur á móti reynt að sigrast á þeim hræðslum & lært af því bæði að tapa & mistakast & haft verulega gott af því. Maður á aldrei að láta það stoppa sig. 

 

Hvenær hlóstu það mikið að þú fékkst illt í magann?

Ég hlæ oft svo hátt & mikið að ég fæ oft illt í magann, ætli seinast hafi ekki verið í einstaklega góðum vinkonuhóp þar sem hláturgusurnar fá oftar en ekki að hljóma um allt hús.

 

 

 

Hvað er það stórkostlegasta sem þú hefur séð með þínum eigin augum?

Þegar systir mín byrjaði að tjá sig aftur eftir mikil veikindi þar sem hún hætti að tala, borða & ganga á örstuttum tíma. Það var stórkostlegt, sá það í gegnum Skype þegar ég var heima í próflestri & fjölskyldan á barnaspítalanum í Boston.

 

 

Hvernig myndi fullkominn dagur líta út hjá þér?

Ég myndi vakna snemma, fara á æfingu í Mjölni, læra/vinna & njóta mín í því sem ég er að gera hverju sinni, hitta góða vinkonu eða vin í hádegismat, nýta seinnipartinn með systur minni, fara á hestbak & borða með fjölskyldunni & enda kvöldið á að hitta góða vini.

 

 

Ert að gera frábæra hluti núna, hver helduru þú að ástæðan fyrir því sé?

Ég hef trú á sjálfri mér & reyni að gera allt sem mig langar til. 

 

Hvaða kostir við þig hjálpa þér að ná árangri?

Skipulagning, jákvæðni & áræðni. 

 

 

Hvað er framundan hjá þér?

Mun vinna í lögreglunni á Suðurlandi út sumarið & hefja síðan mastersnám við lagadeild HÍ í haust. Samhliða því sinni ég svo ýmsum verkefnum. Annars er bara framundan að muna að setja lífið í fyrsta sæti. Ég þarf reglulega að minna mig á það sjálf. 

 

 

"Focus on the people who matter most; focus on ideas that change the world for the better; and be generous in helping people trying to bring those ideas to life

Ég held ég sé ekki sú eina sem að fyllist aðdáun þegar ég las þessi svör. Ótrúleg fyrirmynd í alla staði. 

 

x sylvia