Svepparisotto með sælkerasveppum

02 Sep 2015

Síðastliðinn sunnudag fór ég á Matarhátíðina í Hörpu og verslaði þar nokkrar vörur. Ég ætla að sýna ykkur þær á næstu dögum, þeirra á meðal voru ostrusveppir sem ég notaði við risotto-gerð.

Þessir sveppir eru framleiddir af Sælkerasveppum en það  fyrirtæki hef ég séð á Matarmarkaðinum áður en aldrei verslað hjá þeim.
Þeir buðu upp á smakk af súpu sem þeir elduðu úr sveppunum og hún var ekkert smá góð en það varð til þess að ég ákvað að kaupa sveppina.

Sælkerasveppir framleiða sveppina fyrir íslenskan markað og því er þetta glæsileg íslensk vara.
Þeir settu uppskriftina af súpunni á facebook-síðuna sína hér. Ég gerði tilraun með sveppina í risotto sem heppnaðist ekkert smá vel.

Hráefni:

200g risotto hrísgrjón (100g á einstakling)
400 ml kjúklingasoð (tveir teningar og heitt vatn)
2 matskeiðar smjör
1/2 laukur
20g þurrkaðir sveppir (Það eru 30 g í pakkanum þannig það var smá eftir sem þú getur notað í sósu með kjöti eða klárað þá í uppskriftina)
 1 pakki parmesan ostur.
1/2 glas af hvítvíni, notaðu hvítvínið sem þú drekkur með matnum, Jacbos Creek passaði mjög vel við.

 Láttu þurrkuðu sveppina í skál, helltu volgu vatni yfir og láttu þá liggja í bleyti í svona 15-20 mínutur.

Bræddu smjör í djúpri pönnu/potti og helltu smá olífuolíu í smjörið svo það brenni ekki. Saxaðu síðan hálfan lauk mjög smátt, settu hann í smjörið og eldaðu þangað til hann verður mjúkur. Helltu síðan grjónunum í pottinn, hrærðu aðeins í, helltu svo hálfu hvítvínsglasi í og hrærðu saman.
(Notaðu trésleif eða skeið það fer betur með pönnuna)
Svo er það í raun og veru þolinmæðin sem gildir. Smátt og smátt helliru soðinu út í og hrærir, þú þarft að standa við pottinn allan tímann.
Passaðu það að það sé aldrei of mikið af soði og aldrei of lítið.
Eftir svona 10 mínútur þá ættiru að vera búin með sirka helminginn af soðinu, þá tekuru sveppina úr bleyti, helltu svona ca. 1/4 bolla af sveppavatninu út í risottogrjónin til að fá meira sveppabragð.
Skerið sveppina gróflega og setjið þá síðan í grjónin.
Hrærðu reglulega og bættu við soði inn á milli. 
Ef þér finnst þetta flókið þá mæli ég með að fara inn á Youtube og skoða video.
Eftir svona u.þ.b. 20 mín þá ættu grjónin að vera elduð og soðið búið.
Slökktu þá á hellunni og rífðu slatta parmesan ost yfir og hrærðu saman (hálfu stykkinu ef það er keypti út í búð), osturinn bráðnar og "límir" þetta saman.
Settu síðan á disk og berðu fram með ferskri basiliku, rifnum parmesan osti og svörtum pipar.
Settu síðan parmesan ostinn á borðið, því sumir eins og ég vilja alltaf bæta meira við af honum.Þið verðið að afsaka gæðin á myndunum, myndavélin varð batteríslaus akkúrat þannig að ég þurfti að nota símann.  Marta Rún