FENG SHUI

14 Oct 2015

Trendin í innanhúshönnun í dag hafa töluvert feng shui yfir sér,  þessi ævafornu kínversku fræði hafa verið lengi uppi á borðinu og margir sem notast við það og nota það. Feng Shui, þýðir á íslensku vindur og vatn, en er oft kallað listsköpun staðsetningar. Það snýst um að ná fram náttúrulegu flæði orku í umhverfinu okkar. Ef þetta er notað rétt gerir það okkur kleift að fá aðgang að hámarks orku sem okkur býðst á hverjum tíma í hverju rými. Yin og Yang er kraftur sem býr í öllu sem í kringum okkur, bæði sýnilegu og ósýnilegu. Þegar við skiljum atriði eins og liti, form, árstíðir, mat líkamshluta og hvert þau beina okkur, getum við hafið breytingar á umhverfi okkar til að styðja við og ýta undir atburði í lífi okkar. Sem dæmi, við málum herbergi í ákveðnum lit, breytum notkun herbergis, bætum við plöntum, málm eða færum borð og látum það snúa í aðra átt. Feng shui snýst að stórum hluta um að leyfa birtu hvers rýmis að njóta sín, hreint loft, lifandi plöntur, hafa hluti sem skipta okkur máli, skipulag og ekkert yfirþyrmandi drasl. Ég er núna búin að eyða töluverðum tíma í að lesa um þetta og skoða myndbönd. Eitt myndbandið var úr íbúð á Manhattan og talað var við konu sem hafði fengist við Feng shui í 15 ár. Íbúðin fékk mig strax til að hugsa um hús arkitektsins Rut Káradóttur en myndir af hennar húsi eru í bókinni Heimsóknir sem er frábær bók með myndum af íslenskum heimilum. Forsíðumyndin er úr henni og af heimili Rut Kára.

 


Bagua er orkukort sem hvert heimili hefur. Þetta er það mikilvægasta en jafnfram einfaldasta grunnhjálpartækið sem notað er í Feng Shui. Bagua skiptir rýmunum okkar í svæði sem tákna mismunandi hluti í lífinu okkar. Þú átt að ímynda þér húsið/íbúðina þína á þessu korti og vinna svo út frá því út frá áttunum. En hugsar alltaf samt um þig, hvað þér og þínum finnst og hverjar ykkar þarfir eru.


Í svefnherberginu á allt að snúast um gott flæði. Rúmið á að vera sem lengst frá hurðinni og helst ekki upp við glugga. Einfaldleiki, hreinleiki og þægilegt andrúmsloft á að vera þér ofarlega í huga. Enginn rafmagnstæki eða fjölskyldumyndir sem gætu truflað. Þú átt að hleypa birtu og orku inn með því að draga frá glugganum á morgnanna en loka orkuna inni á kvöldin og nýta þér hana.


Feng shui er mjög mikið notað í starfsumhverfi og á skrifstofum, því það er nauðsynlegt að búa yfir sem mestri orku í vinnunni.

Uppröðun á skrifborðið er mjög mikilvægt. Mikið drasl og skítur hjálpar engum.
Einnig getur skipt miklu máli hvernig skrifborðið snýr og að hafa góða birtu og gott loft gerir gæfumun.

Ef þið á annað borð hafið einhvern áhuga á þessu þá eru þið mögulega að gera margt rétt í þessum hlutum. Einnig hentar þetta ekki öllum. Ég tel að þetta getur verið mjög hjálplegt í að endurskipuleggja og endurraða. Losaðu þig við drasl sem þú vilt ekki hafa, einnig ef það er eitthvað sem er ónýtt, skítugt og hefur enginn notagidi fyrir þig. Núna er plöntuæði, nýttu þér það, plöntur og blóm geta gert gæfumunin og gleðja augað.

SARA SJÖFN