Fyrsti göngutúrinn okkar

24 Nov 2015

Við litla fjölskyldan nýttum okkur lognið á sunnudaginn og skelltum okkur í fyrsta göngutúrinn. Vitaskuld værum við búin að fara fyrr ef það hefði ekki verið fyrir þetta frost sem er búið að vera síðustu vikur. 

Það var ansi ljúft að geta viðrar litla manninn, eins fallega vagninn hans. Þrátt fyrir mikla inniveru fyrstu vikurnar hans þá vorum við samt búin að venja hann á vagninn sinn og hann svaf og sefur í honum á daginn, honum þykir það ótrúlega notalegt þar sem vagninn er mjög dúðaður að innan og ansi kósý ef ég segji sjálf frá. Ég hefði ekkert á móti því að vera dúðuð svona upp og mér svo keyrt um í vagni og myndi sofna við hljóðið í rokinu sem nær ekki að snerta mig... er skrýtið að játa það?

Við eins og allir verðandi foreldrar vorum í miklum vagna- og bílstólahugleiðingum og enduðum á að festa kaup á Silver Cross Elegance vagni og Silver Cross Simplicity bílstól. Ég féll alveg kylliflöt fyrir þessum vörum þegar sambloggari minn hún Sylvía fékk sér þær fyrir sinn peyja og erum við alveg í skýjunum með kaupin, það er einmitt líka svo hentugt að geta skellt bílstólnum á kerruna fyrir Kringlu heimsóknirnar sem verða líklega ófáar í orlofinu. Nánast hver einasta manneskja sem kemur í heimsókn til mín hefur haft orð af því hversu fallegur vagninn er. Hann er algjör mubla að mínu mati og það er kannski þess vegna sem það fer ekkert í taugarnar mínar að hann sé geymdur inni hjá mér. Það er bara svo mikill klassi yfir Silver Cross vögnunum og ekki skemmir það hversu meðfærilegir þeir eru orðnir. Einhvers staðar las ég lýsingu um þá að þeir væru Cadillac vagnanna, mér fannst það skemmtilega orðað því það er alls ekki vitlaust. 

Meira var það ekki í dag - ég ætla að enda þetta á mynd af fallega stráknum mínum sem ég er endalaust montin af.

________

 

Monsi litli í bílstólnum sínum

Xs