Eyja, meyja og peyja

06 Jun 2016

Vaknað í Vestmannaeyjum! 

Já við fjölskyldan litla erum officially flutt á eyjuna fögru yfir sumarið. Upplifunin er öðruvísi, núna erum við ekki í gömlu herbergjunum okkar í foreldrahúsum. Við erum með okkar eigin íbúð í heimabæ okkar sem lýsir sér eiginlega þannig að okkur líður eins og við séum annars staðar á landsbyggðinni, frekar skrítin tilfinning. Undanfarin ár þegar við höfum komið hingað í heimsókn þá hefur stoppið alltaf verið stutt, stutt en gott svo að það verður skemmtilegt að sjá hvernig þetta verður. Ég trúi því sterklega að ég eigi eftir að þurfa að kíkja í bæinn með góðu millibili og pústa og halda mér á tánum. 

 Við erum bæði fædd og uppalin hér en eftir að hafa búið í bænum í nokkur ár þá hallast ég persónulega meira að borginni til að búa í. Ég er búin að komast að því að ég þarf þetta action í kringum mig og menninguna sem hún hefur, hér er svo auðvelt að detta í letigír, eirðarleysi og "elsku mamma hvað er í matinn?". En við ætlum að reyna á þetta og erum bara nokkuð spennt fyrir komandi mánuðum. Hjálmar ætlar að lækna Eyjamenn og ég ætla að vera í mömmuleik, blogga og hanna. Ég fékk rosalega skemmtilegt verkefni á dögunum sem ég hlakka til að byrja að vinna að. Ég kláraði einnig að hanna íbúð í kórunum í Kópavogi og get ekki beðið eftir að sýna ykkur útkomuna sem er geggjuð ef ég segi sjálf frá. Nóg að gerast allavega, það er sko alls ekki hægt að kvarta yfir því. 

Í dag ætla ég að klára eitt verkefni fyrir Femme.is sem er alltaf á uppleið, henda mér inn á kaffihús og leita mér að innblæstri fyrir komandi verkefni og anda að mér Eyjaloftinu. Ég fer spennt og full tilhlökkunar inn í sumarið. Ég legg samt allt undir veðurguðina að gefa mér gott veður, koma svo Gula - ég set geðheilsuna og hamingjuna mína á þig... engin pressa samt. 

Þetta var stutt & laggott hjá mér í dag - Þangað til næst, 

 S A R A  D Ö G G