SPICY CAJUN CHICKEN

05 Jul 2016

Mæli með þessum góða og ferska kjúklingarétti.

 Þetta er réttur sem ég geri klárlega aftur og þá sérstaklega kartöflumúsina sem var með.
Svo einfaldur og fljótlegur. (Það gæti verið slagorðið mitt)
Ég bauð vinkonu í mat um daginn og ákvað að prufa eitthvað nýtt og það heppnaðist rosalega vel.


Kjúklingur:
4 kjúklingabringur
1 matskeið Cajun krydd (ætti að fást í öllum búðum)
1 matskeið hveiti eða maísmjöl
Ólífuolía
20g feta ostur

Byrjaðu á því að setja kjúklingabringurnar á bökunarpappír, leggðu svo bökunarpappír líka yfir og berðu bringurnar niður í þynnri bita með pönnu eða kökukefli.
Þegar þær eru allar orðnar jafnar ca. 1,5 cm á hæð þá saltaru þær, stráir hveiti og cajun-kryddinu jafnt yfir báðum megin.
Þetta flýtir fyrir eldunartíma kjúklingsins og gerir þetta að enn fljótlegri rétti.


Steiktu þær á heitri pönnu með olíu í ca. 3-4 mínútur eða þangað til þær eru orðnar brúnar og eldaðar í gegn.
Þú getur einnig skellt bringunum á grillið í 3-4 mín eða þar til þær verða tilbúnar.

 
 
Kartöflumús:
800 g sætar kartöflur
2 matskeiðar sweet chilli sósa

Skrældu kartölfurnar og skerðu í bita.
Sjóddu vatn í potti og settu kartöflurnar í og láttu þær sjóða í svona 10-15 mín eða þangað til þú getur auðveldlega stungið gaffli í þær.
Helltu síðan vatninu úr og stappaðu þær í mauk með 2 matskeiðum af sweet chilli sósu.
(Ég mun ekki gera sæta kartöflumús hér eftir án þess að bæta sweet chilli sósu við)

 
 
Salsa:
4 Ferskir maísstönglar (getur notað maís í dós en þetta er betra)
1 búnt ferskur kóríander
1 Rauður chilli
4 vorlaukar 
3 tómatar
2 lime
1 matskeið ólífuolía

Skelltu maísstönglunum á grill eða á pönnu á miðlungshita og snúðu reglulega í 10-15 mín.
Þegar maísinn er tilbúinn þá snýrðu honum upp og skerð maísbaunirnar af og setur þær í skál.
Saxaðu helminginn af kóríandernum í skálina og skerðu svo vorlaukinn, tómatana, chilli og settu í skálina.
Kreistu limesafann yfir og settu matskeið af ólífuolíunni líka.
Saltaðu smá og blandaðu öllu saman. 


 Settu kartöflumúsina á disk eða bretti og dreifðu úr henni.
Skerðu síðan kjúklinginn í bita og raðaðu ofan á músina.
Myldu síðan fetakubb yfir allt saman og saxaðu restina af kóríandernum.

Sumar og rósavín fer líka svo vel saman.

Marta Rún