Linsubaunalasagna með kasjúhnetu pestó!

14 Aug 2016

VEGAN VIÐTAL

Ég hef nú eitthvað verið að prófa mig áfram með vegan uppskriftir & færa mig nær því mataræði. Ég hélt að þetta væri erfiðara en finnst ég oft vera í erfiðleikum með fjölbreytni, vantar oft hugmyndir af skemmtilegum uppskriftum.

Ég ætla því að taka viðtöl við ýmsa í okkar samfélagi sem að eru virkilega góðir í þessu & ég hef verið að fylgjast aðeins með. Fyrsti viðmælandi minn mun vera hún Lilja en hún er 25 ára nemi í næringafræði við Háskóla Íslands. Hún er einnig að kenna samkvæmisdansa & Zumba. En ég rakst á matarbloggið hennar núna á dögunum sem að mér fannst svo frábært! 

Ég ætla að leyfa henni að eiga orðið 

 

 

Hvenær ákvaðstu að gerast vegan?

Það er í raun mjög stutt síðan, minnir að ég hafi tekið ákvörðun í febrúar á þessu ári eftir að horft á heimildarmyndina Cowspiracy. Forvitnin kviknaði hins vegar í fyrra eftir að hafa setið fyrirlesturinn How to become vegan in 5 hours“  sem einn kennaranna minna flutti fyrir okkur síðasta haust. 

 

Fannst þér erfittbreyta um lífsstíl?

Já, ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta gríðarlega erfitt til að byrja með, sérstaklega hvað mjólkurvörur varðar. En maðurinn minn er creature of habit & því var þetta fljótara að venjast - í dag finnst mér þetta minnsta mál í heimi. Ég þurfti eiginlega bara að læra að elda uppá nýtt, kynna mér krydd & samsetningar sem að virkuðu. Ég elska hvað vegan fæði er fjölbreytt þegar maður hugsar aðeins út fyrir kassann. 

 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ég er á ekki beint neinn uppáhaldsrétt, en blómkálspítsa, lasagne & framandi salöt eru hátt á lista. Eins er ég mikið fyrir þeytinga sem samanstanda af ferskum ávöxtum & plöntumjólk. 

 

Er eitthvað sem að þú sækjir í svona dagsdaglega?

Ég sækist mikið í salöt & einfaldan, fljótlegan mat. Eins mikið & ég elska að elda fljóknar & tímafreka rétti þá er ég mikið "on the go! & elska að geta gripið í ferskt salat með allskonar gotteríi, t.d. linsum, baunum, kínóa eða hummus. Það þarf ekki að vera flókið til að vera bragðgott! 

 

 

Hvar verslaru helst í matinn?

Í Krónunni! Sérstaklega nýju Krónubúðinni sem að var að opna í hafnafirðinum, hún er alger snilld & merkir allt svo vel. Annars elska ég að gera mér ferð í Gló fákafeni & kíkja á vegan himnaríkið sem að þau eru búin að skapa þar. 

 

Er einhver súperfæða sem þú mælir með að eignast í hilluna eða ísskápinn?

Númer eitt, tvö & þrjú finnst mér mikilvægt að fólk borði fjölbreytt, næringarríkt fæði & reyni að finna jafnvægi þegar það kemur að mataræðinu. Annars finnst mér kínóa alger snilld, ásamt möndlum & möndlusmjöri, hreinu kakódufti, avakadó & brokkólí en allt er þetta stútfullt af næringarefnum, vítamínum & steinefnum ásamt því að vera syndsamlega gott á bragðið!

 

 

Hvaða breytingu fannstu þegar þú breyttir mataræðinu?

Ég fann mikla breytingu á húðinni minni - hún varð mun hreinni & mýkri eftir að ég tók út kjöt & mjólkurvörur. Auk þess hætti ég að sækjast eins mikið í sykur, enda er ég farin að elda meira frá grunni sem að þýðir að ég vel ósjálfrátt næringarríkari kosti sem valda ekki eins miklum sveiflum í blóðsykrinum. 

 


 

 

Linsubaunalasagne með kasjúhnetupestói

Lasagne innihald: 

2 dl rauðar linsur

4 heilkorna lasagne plötur

1 dós hakkaðir tómatar

1 lítil dós tómatpúrra

4 hausar brokkólí (ca. 100 grömm)

2 msk sólþurrkaðir tómatar (í olíu)

4 hvítlauksgeirar

hálfur rauðlaukur

lúka fersk basilika

1 grænmetisteningur 

Næringarger

Salt & kjúklingakrydd

 

 


 

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 170°C og blástur. Skolið linsurnar og sjóðið með 5 dl af vatni og grænmetistening. Setjið lokið á þegar suðan kemur upp og lækkið hitann aðeins. Sjóðið í u.þ.b. 20 mínútur, eða þangað til linsurnar eru orðnar mjúkar. Mikilvægt að fylgjast með og hræra inn á milli svo þær brenni ekki við botninn. Þegar þær eru tilbúnar finnst mér best að hella þeim í sigti og sía vatnið eins vel frá og hægt er.

  2. Sjóðið á meðan vatn og raðið lasagne plötunum á fat og hellið vatninu yfir. Með þessu móti mýkjast þær og þurfa ekki að vera eins lengi í ofninum – það gerir það að verkum að minna af næringarefnum tapast úr grænmetinu við eldun.

  3. Skerið brokkólí, sólþurrkaða tómata, hvítlauksgeira, rauðlauk og basiliku í grófa bita og setjið í matvinnsluvél. Maukið í hálfa mínútu, stoppið og skafið niður meðfram skálinni. Endurtakið þetta þangað til hráefnin eru orðin fínt skorin. 

  4. Hitið pönnu með 1 tsk af ólífuolíu, grænmetisblöndunni á og steikið á hæsta hita í ca. 2 mín. Lækkið svo hitann, bætið linsunum og báðum tómatdósunum við og blandið öllu vel saman. Bætið svo við salti og kjúklingakryddi eftir smekk.

  5. Lokaskrefið er svo að setja helminginn af blöndunni í eldfast mót, skipta blöndunni í tvennt og raða lagskipt: linsubaunablanda, 2 lasagne plötur, linsubaunablanda (skilja smá eftir), tvær lasagne plötur og þekja svo efstu lasagne plöturnar með restinni af blöndunni. Þessu er svo skellt inn í ofn í 15-20 mínútur. Að lokum strái ég næringargeri yfir og toppa með kasjúhnetupestóinu.

 

 


 

Kasjúhnetupestó:

1 ½ dl sólþurrkaðir tómatar í olíu

1 dl kasjúhnetur

2 msk olía af tómötunum

 

Aðferð:

Allt sett í matvinnsluvél. Maukið í hálfa mínútu, stoppið og skafið niður meðfram skálinni. Endurtakið þetta þangað til tómatarnir og hneturnar eru orðin fínt skorin.

 


 

Við þökkum Lilju kærlega fyrir þetta, þið getið einnig fylgst með henni á vefnum hennar WE CRAVE VEGAN hér

 

Vonandi fannst ykkur þetta skemmtilegt & fróðlegt, ég kem til með að birta hér viðtöl & uppskriftir við fleiri! 

 

með kærleik, 

Sylvia

#veganviðtal #linsubaunalasagna #kasjúhnetupestó #vegan