HAFRAKLATTAR - Júlía

18 Aug 2016

VEGAN VIÐTAL 

Ég fékk til mín hana Júlíu í smá viðtal en ég hef verið að fylgjast vel með henni finnst svo margt skemmtilegt & flott sem að hún hefur verið að gera. En við áttum það líka sameiginlegt að hafa lært í sama heilsumarkþjálfaskólanum. Júlía heldur einnig út snappi sem að mér finnst svo gaman að fylgjast með til að fá skemmtilegar hugmyndir sem & fróðleiksmola. Júlía er semsagt heilsumarkþjálfi & lífstílsráðgjafi hjá Lifðu til fulls. Hún er að hjálpa fólki við að breyta mataræði & lífstíl. Hún er að gera þeim kleyft að upplifa meiri orku en áður & líða vel í sínu eigin skinni, hún gerir það með hreinsununum sínum, þjálfun & áskorunum. 

 

Ég ætla að leyfa Júlíu að eiga orðið 

 

Fannst þér erfitt að breyta um lífsstíl?

Nei ég get ekki sagt að mér hafi fundist það erfitt, í raun leit ég á þetta sem nýja og nauðsynlega byrjun hjá mér og ég var svo spennt að sjá hversu vel mér gæti farið að líða. Vissulega komu tímar fyrst um sinn þar sem maður datt útaf sporinu, en það þýðir ekkertsvekkja sig á því, bara rísa aftur upp og átta sig á hvað sé hægt að læra af því.

 

Í raun finnst mér ég borða betri mat í dag en ég hef nokkru sinni gert og þetta kemur frá manneskju sem var algjör sykurfíkill hér áður. Mér líður bara svo miklu miklu betur og bragðlaukarnir mínir fá að njóta sín á hverjum einasta degi, mér líður aldrei eins og ég sé að banna mér neitt. Ég held að það sé líka lykilatriði fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í hollustusetja sér ekki boð og bönn um neitt, heldur frekar huga að því þegar það velur sér hvað það ætli að borða, hvernig því muni líða eftir þessa fæðu. Ég geng út frá þessu daglega

 

 

 

Hver er uppáhalds maturinn þinn?

Það er svo margt, en ég elska mexíkanskan mat og tileinka Mexíkóréttum heilan kafla í væntanlegri uppskriftabók minni. Mér finnst fátt toppa heimagerðu taco-in mín með kínóa- og svartbaunafyllingu toppað með guacamole ásamt svalandi kombucha drykk! Og svo auðvitað hráfæðissúkkulaðikaka í eftirrétt. 

 

 

 

Er eitthvað sem að þú sækir í svona dagsdaglega?

Grænt búst með kakó er hversdags hjá mér þessa dagana. 

 

Hvar verslaru helst í matinn?

Nettó og Gló. Á sumrin elska ég líka að fara á bændamarkaði.

 

 

Er einhver súperfæða sem að þú mælir með að eignast í hilluna eða ísskápinn?

Chia fræ, kakó og hemp fræ eru mín “go-to” fæða sem ég á alltaf til. En chia og hemp fræ eru gjarnan sögð vera næringarlega fullkomin saman. Chia fræin gefa okkur omega 3 og 6 frá plönturíkinu og mörgum þykir fræin hjálpa til við að slá á sykurlöngunina. Hemp fræin innihalda þar að auki gott prótein og helstu amínósýrur.

 

Hvaða breytingu fannstu þegar þú breyttir matarræðinu?

 

Saga mín er nokkuð dramatísk, ef svo má segja.

Á yngri árum greindist ég með iðraólgu (IBS) sem lýsti sér í meltingaróþægindum og sífelldri magakveisu hjá mér. Að auki var ég alltaf fyrst til að grípa flensu og fékk oft eyrnabólgu. Í kringum tvítugsaldurinn greindist ég svo með PCOS (fjölblöðrueggjastokkaheilkenni) sem gerir það að verkum að blöðrur myndast á eggjastokkum í stað þess að egglos verði. Í mínu tilfelli fylgdu óreglulegar blæðingar, hárlos og svitaköst á nóttunni. Ofan á allt þetta kom í ljós að ég var með latan skjaldkirtil sem hafði m.a. hægari brennslu og enn meira orkuleysi í för með sér. Þetta var algjört sjokk og ég sá fram á að ef ég gerði ekki eitthvað róttækt í mínum málum myndi ástandið einungis fara versnandi.

 

Þannig hófst mín lífsstílsbreyting og starfsferill. Í dag líður mér betur en nokkru sinni fyrr, iðruólgan ekki lengur til staðar, skjaldkirtillinn vinnur sem heilbrigður í dag og orkulega séð hef ég aldrei haft það betur. PCOS einkennin hef ég náð að auki að vinna upp eðlilega, en það tók sinn tíma og margt sem ég hef þurfti að prófa og finna hvað hentaði akkúrat mér. Mig hefur í raun og veru aldrei liðið eins vel og mér líður í dag og ég hlakka til að deila mataræði mínu með Íslandi í væntanlegu uppskriftabók minni sem kemur út í bókabúðir núna í september en hún heitir “Lifðu til fulls, yfir 100 ómóstæðilegar uppskriftir fyrir orku, vellíðan og ljóma”. 

 

 


 

Framundan og uppskrift

Á mánudaginn(15. ágúst) hefst Ókeypis 14 daga sykurlaus áskorun hjá mér þar sem ég gef eina uppskrift fyrir hvern virkan dag sem slær á sykurlöngunina ásamt innkaupalista fyrir alla vikuna. Þessar áskoranir hafa verið ótrúlega vinsælar hjá okkur og nú yfir 22.000 manns skráðir til leiks, en við erum með lokaða facebook grúppu fyrir pepp og stuðning og verð ég einnig inni á snapchat: lifdutilfulls í beinni á meðan á áskorun stendur

 

Þegar ég byrjaði að prófa mig áfram í sykurleysinu vissi ég ekki hvað ég átti að fá mér því ég var svo hrædd um að það yrði bragðvont en ég komst fljótt að því að það var hægt að gera sykurleysið alveg hrikalega gómsætt. Svo áskorun byrjaði af löngun til þess að hjálpa öðrum að gera sykurleysið einfalt og bragðgott, svo uppskriftirrnar eru virklega girnilegar og gefa þér upplifun að þú sért að borða hvítan sykur.

Þátttaka er ókeypis og fæst með skránigu hér

 

Geggjaðir, sykurlausir hafraklattar

 

~ gerir c.a 18 stykki, fer eftir stærð.

 

Þessir eru dásamlega góðir og alveg fullkomnir að hafa í veskinu að grípa í þegar þú ert á ferðinni og vantar eitthvað að narta í eða jafnvel í útileguna.

 

Botn:

1 bolli sólblómafræ

1 bolli möndlur

1/4 bolli kókoshveiti

4 msk möndlusmjör eða tahini

4 msk kókosolía

5 mjúkar döðlur

1 tsk vanilla

 

Súkkulaðikrem

4 döðlur

1/4 bolli kókosolía

4 msk lífrænt kakóduft

4 dropar stevia

 

- Það má líka sleppa döðlunum og nota þá 2 msk auka af möndlusmjöri í botninn og 2 dropar aukalega af steviu í kremið. En döðlurnar gefa góða sætu.

 

Byrjaðu á að gera botninn:

Maukaðu sólblómafræin og möndlurnar í matvinnsluvél og settu til hliðar. Bættu hinu hráefninu út í og hrærðu þar til blandað. Dreifðu úr deiginu í eldfast mót og þrýstu því svo vel niður.

 

Næst gerirðu kremið:

Bræddu saman í potti kókosolíuna, kakóinu og stevíunni þar til þetta er orðið þykkt. 

Að lokum dreifirðu úr kreminu yfir botninn, geymir í ísskáp í um það bil 25 til 30 mínútur eða þar til stökkt. Skerðu í kubba og njóttu. 

 

 


 

Ég vil þakka henni Júlíu minni kærlega fyrir þetta, ég mæli svo með því að fólk fylgist með henni. Það er svo mikil gleði og ró sem að fylgir henni. Ég vill á sama tíma óska henni til hamingju með bókina sem að hún ætlar að gefa út og ég verð klárlega með þeim fyrri að verða mér útum hana. 

SNAPCHAT: lifdutilfulls

lifdutilfulls.is

 

með kærleik, 

Sylvia