Skreytum hús með grænum greinum

02 Nov 2016

Status: Vafrandi á Pinterest að sanka að mér jóla innblæstri með jóla-Bublé á fóninum. Næst á dagskrá er að hella upp á einn rjúkandi og njóta með nokkrum (nokkuð mörgum) piparkökum. Ó hvað tíminn er ljúfur framundan!

Mikla jólabarnið ég eeelskar þennan tíma árs. Jólin í ár verða þó allt öðruvísi. 
Öll mín ár hef ég eytt jólunum heima í Eyjum í faðmi fjölskyldunnar og varla þurft að lyfta upp litla fingri. Jújú, ég hjálpaði mömmu alveg að baka og skreyta og svona. En þegar kemur að aðal deginum þá skipti ég mér ekkert af eldamennskunni, ég sé um að leggja á borðið með mömmu og svo bíð ég bara spennt eftir að setjast við borðið og borða mig veika. Við systkinin þurfum jú að samþykkja sósuna, pabbi kallar í okkur annað slagið og leyfir okkur að smakka hana til. Þessi sósa eru jólin, ég sver það - Ég gæti drukkið hana!

Eins og þið flest vitið þá eru jólin í ár ömurleg, frílega séð. Þau lenda á helgi sem gefa okkur enga auka frídaga. Því er lítill séns að hoppa til Eyja, það eiginlega tekur því ekki. Við litla fjölskyldan ætlum því að eyða jólunum í fyrsta skiptið hér í bænum og í fyrsta skiptið erum við sjálf að fara halda jól. Vá, raunveruleikinn er að sinka inn núna, djöfull er ég orðin fullorðin. Núna get ég ekki lengur hangið í náttfötunum þangað til að mamma segir mér að klæða mig, legið í sófanum að horfa á jólamyndir og kallað af og til inn í eldhús "hvað er langt í matinn?". Mér líður eins og ég sé einhver spoiled brat þegar ég les yfir þetta, ég greinilega hafði það rosalega gott heima hjá mömmu og pabba. 

Núna tekur alvaran við. Ég á lítið sem ekkert jólaskraut og þarf að fara í þau mál helst sem fyrst. Ég á ekki einu sinni dúk á borðið, hvað þá jólatré! Ein pæling samt sem snýr að ykkur sem eigið börn. Er ekki algjört vesen að vera með skreytt jólatré og einn lítinn handóðan eins árs? Hann er ennþá svo mikill óviti að skamm, nei, ó-ó og má ekki virka ekki á hann... úff þetta verður áskorun. Burt séð frá því þá langar mig samt að gera huggulegt hérna heima og skapa nýjar hefðir fyrir okkur fjölskylduna. Þetta verða fyrstu jólin sem Nóel getur tekið þátt í og ég krútta yfir mig við tilhugsunina. Ég hlakka svo til að skapa nýjar minningar með honum og auðvitað kynna honum fyrir jólasveininum. Aaa ég er svo spennt. Ég trúi ekki öðru en að barnið verði nafninu sínu til sóma. 

_____________________________________

Yfir í efni færslunnar. Hér er fallegur innblástur að einföldum & stílhreinum jólaskreytingum. Ég hugsa að ég haldi mig við þessa litapallettu: 

Dökkgrænt - Svart - Hvítt - Gyllt 
 

Gleðilegan jólaundirbúning xx