Coq Au Vin

10 Feb 2017

Þessir köldu vetrardagar kalla á einhvers konar „comfort food“ og þá hugsa ég oft um franska pottrétti og þá aðallega um fræga réttinn Coq au vin (kjúklingur í víni). Hann er fullkominn á dögum sem þessum. Rétturinn er líka rómantískur, borin fram með rauðvíni og hentar því fullkomlega fyrir komandi Valentínusardag. Af hverju ekki að koma ástinni þinni á óvart með klassískum frönskum rétti og góðu rauðvíni?Coq au vin er alls ekki flókinn í framkvæmd þó það taki tíma að laga hann. Stóran hluta tímans er rétturinn að malla inní ofni og þá getur þú bara slappað af og notið þess að finna þessa dásamlegu matarlykt sem kemur í húsið. Best þykir mér að bera hann fram með kartöflumús og baguette brauði til að dýfa í soðið. Einnig mikilvægt að velja gott rauðvín með, ég átti líka tvær flöskur af góðu spænsku rauðvíni sem var svo fullkomið að nota aðra í réttinn og hina til að bera fram með honum.

Hráefni:
1 msk olífuolía
1 pakki beikon (120g)
kjúklingaleggir og læri (8-10 bitar)
1 stór laukur
2 meðalstórar gulrætur
2 hvítlauksgeirar
½ bolli vískí eða brandý
½ rauðvínsflaska
1 bolli kjúklingasoð (1/2 teningur og heitt vatn)
4-5 rósmaríngreinar
1 msk smjör
1 msk hveiti
250g sveppir
salt og pipar


 

Aðferð:

Stillið ofninn á 120°C.

 1. Finnið til stóran pott sem má fara í ofninn (eða stóra pönnu og eldfastmót með loki).
 2. Skerið beikonið í bita og steikið í 8-10 mínútur á miðlungshita með olíu. Þegar beikonið er orðið stökkt og tilbúið færið það yfir á disk með eldhúspappír undir.
 3. Saltið og piprið kjúklingabitana og steikið þá í sama potti og beikonið. Þið eruð ekki að elda kjúklinginn í gegn heldur bara að brúna bitana. Steikið nokkra í einu og færið þá svo yfir diskinn með beikoninu.
 4. Skerið laukinn og gulræturnar í miðlungsstóra bita og setjið í pottinn góða, saltið og piprið og steikið í 10 mínútur. Bætið hvítlauknum útí á síðustu mínútunni.
 5. Bættu vískí útí og nuddið botninn á pönnunni og skrapið allt það “brennda” í botninum sem er fullt af krafti og bragði.
 6. Setjið nú kjúklinginn og beikonið aftur í pottinn, hellið hálfri rauðvínsflösku útí pottinn (og ykkur í glas), bætið svo kjúklingasoðinu og rósmaríngreinunum útí. Þegar suða myndast, setjið pottinn með lokinu inní ofn í 40 mínútur.
 7. Þegar 40 mínútur eru liðnar takið pottinn út, blandið bræddu smjöri og hveiti í lítið glas og setjið ofan í pottinn til að þykkja sósuna. Skerið sveppina í nokkra bita og bætið þeim ofan í.
 8. Hrærðu aðeins saman og settu aftur inn í ofn í aðrar 10-15 mínútur ekki með lokinu.


   

  Þú átt eftir að slá í gegn á Valentínusardaginn ef þetta verður rétturinn þinn.

  Bon appetit!