Spænsk Paella

30 Mar 2017

Paella er líklega einn þekktasti réttur Spánar og er hægt að útbúa hann á margs konar hátt og nota jafnt kjöt sem fisk. Spánverjar nota yfirleitt spænsk grjón sem heita Calasparra, þau eru ekki til á Íslandi en risotto grjón duga.

Við skelltum okkur á veitingahús hér í Barcelona um helgina og prófuðum eina dæmigerða paellu að hætti Spánverja og er uppskriftin af svipaðri er hér:

Hráefni: 

½ bolli þurrt hvítvín

Klípa af saffran þráðum

1 Chorizo pylsa skorin í sneiðar

6 kjúklingalæri (beinlaus og skorin í bita)

1 stór laukur smátt skorinn

3 hvítlauksgeirar smátt saxaðir

1 stór rauð paprika smátt skorin

1 stór tómatur smátt skorinn

Salt og pipar eftir smekk

1 tsk paprikukrydd

1½ bolli risotto grjón

2 bollar kjúklingasoð

1 bolli frosnar grænar baunir


 

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 200 C gráður.
 2. Blandið saman hvítvíninu og saffran þráðnum í lítið mæliglas.
 3. Hitið stóra pönnu eða pott (sem má fara inn í ofn) yfir miðlungs-háum hita.
 4. Bætið chorizo bitunum út á pönnuna og brúnið í um 3 mínútur. Fjarlægið þá af pönnunni og geymið til hliðar á disk.
 5. Bætið olífuolíu og kjúklinga bitunum á pönnuna og leifið þeim að brúnast í um 5 – 8 mínútur. Kryddið með salti og pipar. Færið kjúklinginn svo yfir á sama disk.
 6. Lækkið hitann niður í miðlungs-háan hita og bætið lauknum á pönnuna og steikið í um 2 mínútur. Bætið svo hvítlauknum við og steikið í um 30 sekúndur.
 7. Skellið tómötunum, paprikunni og paprikukryddinu út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
 8. Bætið hrísgrjónum útí og hrærið allt saman. Kryddið með salti og pipar og hellið vín-saffran blöndunni samanvið og fáið upp suðu. Skrapið upp það sem er á botninum á pönnunni og notið sem kraft.
 9. Bætið chorizo – ​​og kjúklinga bitunum út á pönnuna ásamt og kjúklingasoðinu og leyfið suðunni að koma upp og færið þá pönnuna inní ofn.
 10. Bakið paella-una þar til hrísgrjónin eru nánast tilbúin í um 20 mínútur.
 11. Hrærið í hrísgrjónunum og saltið og piprið eftir smekk. Bætið svo grænu baunum við í lokinn og setjið pönnuna inní ofn í um 5 mínútur eða þar til baunirnar og hrísgrjónin eru tilbúin.