En grár marmari?

10 Aug 2017

Marmari í allskonar útfærslum & litum er kominn til að vera. Hann hefur alltaf verið tímalaus og verður það áfram. Hvítur og svartur hefur verið hvað mest áberandi síðustu ár, ekki bara í borðplötum og flísum, heldur einnig í húsgögnum og smáhlutum. 

Ég er mjög hrifin af marmara og persónulega myndi ég kjósa að hafa hann dökkgráan eða svartan í eldhúsi, en jafnvel hvítan eða ljósgráan inn á baðherbergi. Núna hef ég verið með marmara á heilanum síðustu misseri þar sem ég er að hanna eldhúsið mitt. Ég er búin að fara fram og til baka með það hvort að ég ætti að setja svartan eða gráan marmara á eyjuna mína. Niðurstöðuna tók ég í gær, dökkgrár marmari verður það. Pietra grey marmari heitir hann nánar. Ég sé þetta fyrir mér með stjörnur í augunum... svart matt eldhús með dökkgráum marmara. Ég get hreinlega ekki lýst því hversu mikil tilhlökkunin er að sjá þetta allt smella saman og geta loksins flutt inn. Það er ekkert annað í stöðunni núna en að bíða eftir borðplötunni, sófanum og rúmgaflinum. Ég er alveg tilbúin að flytja inn svo lengi sem ég er með borðplötu og starfandi eldhús! Annað kemur bara þegar það kemur. 

Ég setti í þessa mood-mynd fyrir ykkur um daginn og ég held barasta að ég sé ennþá jafn skotin í þessu consepti. Þetta er nokkurn veginn andrúmsloftið sem ég er að skapa í mínu eldhúsi.