Lambalæri með rauðlaukssultu

01 Nov 2017

Lambalæri með brúnuðum kartöflum, brúnni sósu, rauðkáli og grænum baunum er klassískur matur á íslenskum heimilum. Mér finnst alltaf gott að fá þetta klassíska en hef samt reglulega verið að gera öðruvísi uppskriftir sem eru oft aðeins léttari í magann.
Mér finnst langbest að kaupa kjötið án maríneringu og nota frekar ferskar kryddjurtir, hvítlauk, salt og pipar og marínera sjálf.


Inná lambakjot.is má finna góðar leiðbeiningar um eldunartíma. Best er að nota kjöthitamæli til að tryggja að lærið verði hæfilega steikt.

Meðalsteikingartímar fyrir lambasteik við 160-180°C hita:

Mjög-lítið steikt, 20-25 mínútur fyrir hvern 500 g og kjarnahiti 45-50°C

Lítið steikt 25-30 mínútur fyrir hver 500 g og kjarnahiti 55-60°C

Meðal steikt 30-35 mínútur fyrir hver 500 g og kjarnahiti 60-65°C

Vel steikt 30-40 mínútur fyrir hver 500 g og kjarnahiti 70-75°C

Gegnsteikt 40-45 mínútur fyrir hver 500 g og kjarnahiti 75-80°C.


Lambalæri
1 heill hvítlaukur
4 rauðlaukar
4-5 rósmarínstönglar
1 msk sulta
½ rauðvínsglas
salt & pipar
 

Aðferðin með kjötið í þessari uppskrift er mjög einföld, einungis notað rósmarín, hvítlaukur, salt og pipar. Nuddið lærið með olíu og saltið og piprið lærið vel. Takið hníf og skerið lítil göt í kjötið og vefjið einn hvítlauksgeira með 1/3 af rósmarínstöngli og stingið í gatið á lærinu.
Gerið um 5-6 göt yfir allt lærið.

Setjið lærið á grind og undir grindina stórt fat með rauðlauknum þar sem hann er skorin í þunnar sneiðar og restinni af hvítlauknum, rósmaríninu og smá salti & pipar. Þannig lekur kjötfitan af lambalærinu á laukinn þegar hann eldast sem endar síðan að verða sætur með fullt af kjötkrafti.Ég bar lærið fram með kartöflumús með venjulegum og sætum kartöflum, salat og svo auðvitað rauðlaukssultuna.

Mér finnst best að skera lærið fyrir gesti þegar ég er með matarboð með því að halda beininu lóðrétt og skera niður meðfram öllum hliðum beinsins og svo í bita.

Hér eru svo tvær aðrar uppskriftir af tveimur mismunandi lambalærum.

Sumarlæri

Páskalærið