HEIÐRÚN HÖDD

22 Feb 2018

Heiðrún Hödd Jónsdóttir er 26 ára íslensku - og fjölmiðlafræðingur. Hún heldur úti afar skemmtilegu instagrammi þar sem hún leyfir fylgjendum sínum að fylgjast með í framkvæmdum sem hún stendur í núna. Myndirnar sem hún birtir eru líka algjört augnakonfekt. Heiðrún er nýflutt til Kaupmannahafnar og stundar nú nám við innanhúshönnun.

„Síðasta haust flutti ég til Kaupmannahafnar þar sem ég bý ásamt kærasta mínum, Braga Michaelssyni. Hér er ég að læra innanhússhönnun og Bragi byggingafræði en þau fög fá að njóta sín vel þessa dagana þar sem við keyptum okkur íbúð nýlega og þar þarf aðeins að taka til hendinni enda er hún í yfir 100 ára gamalli byggingu. Síðustu vikur hafa því að mestu (öllu) leyti farið í framkvæmdir og flutninga en þetta er vonandi allt saman á lokasprettinum og sjáum við fram á nóg af hygge á komandi vikum,“ sagði Heiðrún.

YFIRHEYRSLAN

Uppáhalds app? Instagram, þar sem framkvæmdargleðinni er haldið til haga.

Uppáhalds kaffihús? Hér í Köben er ég mjög hrifinn af hverfiskaffihúsinu okkar Wulff & Konstali en heima er það Mokka (og vöfflurnar)

Uppáhalds borg? London fyrir síðdegisteið,  Mílanó fyrir verslunarleiðangurinn og París fyrir makkarónurnar og rómansinn.

Besti maturinn? Ég er mikill matgæðingur og hef mjög gaman að því að bæði elda og uppgötva nýja veitingastaði og rétti þannig þessi listi er ansi langur en sjávarréttir í öllum stærðum og gerðum verma efstu sætin... Já og gott rauðvín gerir síðan auðvitað alla góða rétti enn betri. 

Er bók á náttborðinu? Náttborðið vantar reyndar, en bækurnar eru þó á víð og dreif um íbúðina... var að klára Sakramentið eftir Ólaf Jóhann  (mæli með!) og næst á dagskrá er Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríks.

Hvaðan færðu innblástur? Ég fæ mikinn innblástur úr umhverfinu í kringum mig, hvort sem það er fólk, ferðalög eða náttúrufegurð... Svo eru það alltaf gæðastundir þegar maður sest niður með gott hönnunartímarit og hugurinn fyllist af alls konar hugmyndum og öðrum hugleiðingum. 

Áttu þér uppáhalds hönnuð? Ég á þá nokkra en þegar kemur að fallegum munum og mublum fyrir heimilið þá eru Castiglioni bræðurnir í miklu uppáhaldi ásamt Arne Jacobsen, Finn Juhl og Hans J. Wegner. Ítalskt og danskt verður oftast ansi góð blanda.

Er eitthvað sem heillar þig sérstaklega þegar kemur að heimilum? Þegar persónuleiki þeirra sem þar búa skín í gegn, þau heimili grípa mann oftast... og nóg af blómum, kertum og kósýheitum. 


Þið finnið Heiðrúnu Hödd á instagram hérna og fallega bloggið hennar hérna.