Hvernig ég er að ná andlegu jafnvægi

11 Mar 2018

Eins og svo margir þá hef ég gengið í gegnum margt og mikið á lífsleiðinni, mig langar að deila með ykkur allskyns leiðum og ráðum sem hafa hjálpað mér.
Þessi færsla verður á persónulegri nótunum .. 

Athugið það að fyrirsögnin er ekki í þátíð. Ég er ekki búin að ná því andlega jafnvægi sem ég vil vera í, en lífið er langhlaup ekki spretthlaup. Við þurfum að vera þolinmóð og vinna í okkar vandamálum á hverjum einasta degi.
Því jú við uppskerum eins og við sáum!


Seinasta sumar var ég greind með alvarlega kvíðaröskun, þunglyndi og PTSD.
Ef ég hefði greinst með þessa andlegu sjúkdóma fyrir nokkrum árum þá hefði ég líklega haldið því fyrir sjálfa mig. En við erum svo heppin að lifa á tímum þar sem umræður hafa opnast. Umræður um viðkvæm málefni sem hafa hingað til verið erfitt að tala um fyrir opnum tjöldum.

Við skulum hafa það á hreinu að það er ekkert skammarlegt að greinast með andlegan sjúkdóma, ég er ótrúlega þakklát fyrir þessa greiningu því hún stóran þátt í að koma mér á betri stað.

Ég ætla ekki að fara mikið útí mín veikindi heldur langar mig að fara yfir það sem hefur hjálpað mér að ná andlegu jafnvægi og finna loks fyrir hamingju. Ég á auðvitað mínu slæmu daga eins og gengur og gerist, en líf mitt hefur breyst til hins betra. Það tók samt sem áður mikla vinnu og tíma en það er hverrar sekúndu virði.

Mitt fyrsta ráð er að rýna vel í fortíðina og gera sér grein fyrir rót vandans og þar af leiðandi vinna úr vandanum.
Ég hafði alla mína fjölskyldumeðlimi og vini með mér í þessu verkefni. Ekki nóg með það heldur hitti ég sálfræðing einu sinni í viku og var hjá geðlækni. Þar vann ég úr mínum atburði og náði loks að breyta hugarfari mínu. Ég var staðráðin því að það sem hafði gerst fyrir mig væri alfarið mér að kenna. En með hjálp allra í kringum mig hef ég náð að breyta þessari hugsun í algjöra andstæðu.

Eitt af því fyrsta sem ég lærði var mikilvægi þess að taka einn dag í einu.
Að lifa í núinu og njóta þess að vera hér, nákvæmlega í þessu momenti en það gleymist gjarnan í skammdeginu og hinu daglega stressi. Eins klisjukennt og það kann að hljóma, en vá hvað það er mikilvægt. Það er í rauninni ekki hægt að minna sjálfan sig á þetta nógu oft.
 


 

Það sem ég þurfti að gera þegar ég ákvað að byrja að tækla mín vandamál var að setja sjálfa mig í fyrsta sæti. Treystið mér ég og fólkið í kringum mig er ennþá að minna mig á þetta. Ég er gjörn á að gleyma mér og mínum hag.

Hvað er mikilvægt fyrir mig?
Hvað gerir mig hamingjusama?
Hvernig situr maður sjálfan sig í fyrsta sæti .. ?

Ég lokaði á fólk sem ég átti ekki samleið með og hafði neikvæð áhrif á mig. Fólk sem var umvafið neikvæðri orku og þar af leiðandi smitaði mig af henni. Ég vil miklu frekar vera umkringd fólki sem er umvafið jákvæðri orku og hefur jákvæð áhrif á mig og mína líðan.

Ég heimsótti Bali um jólin og varð hugfanginn af búddisma og hindúisma. Þar er iðkuð bæði hugleiðsla og ýmsar tegundir af jóga af fullum krafti hjá nánast öllum sem þar búa. Eftir að hafa verið á Bali í nokkra daga fann ég hvernig menningin og góða orkan í kringum mig hafði áhrif á andlegu hliðina mína. Ég komst í algjört andlegt jafnvægi enda hefur mér aldrei liðið jafn vel. Þessi upplifun kenndi mér að vera með jákvætt hugarfar, vera glöð og hamingjusöm. Ef ég er umvafin jákvæðri orku þá smita ég næsta mann.

Vá hvað það væri gaman ef við værum öll jákvæð, glöð og hamingjusöm á þessari jörð.

Það sem ég mæli með fyrir alla er hugleiðsla. Það er hollt fyrir alla að ná góðri slökun andlega, hvort sem um geðsjúkdóma er að ræða eða ekki.
Ég keypti aldrei það sem mér var sagt um jóga og hugleiðslu, hvernig á öndun eiginlega að hafa áhrif á andlegu hliðina mína?
Eftir mikla æfingu og einbeitingu þá ég skil ég það loksins. Þessi slökun sem á sér stað er algjörlega ómetanleg.
Ég dýrka appið Headspace, ég nota það mjög mikið og það er gott fyrir bæði byrjendur sem og lengra komna. Headspace býður uppá frían byrjenda kúrs sem samanstendur af 10, 10 mínútna æfingum. Eina sem þarf að gera er að koma sér fyrir á þægilegum stað og eiga notalega stund. Persónulega finnst mér best að setjast á teppi og vera umkringd kertaljósum. Síðan slakar maður á og einbeitir sér að önduninni sinni og hvernig maður á að slaka á ákveðnum líkamspörtum.
Þetta er algjör lifesaver.


Í júlí 2017 komst ég á ákveðinn stað í lífinu, þar sem að ég gerði mér grein fyrir því að ég yrði að gera róttækar breytingar á lífi mínu. Það var þá sem ég tók ákvörðun að hætta að neyta áfengis. Ég get ekki lofað þessa ákvörðun nóg, hún hefur snarbreytt lífi mínu. Ég varð orkumeiri og byrjaði að stunda líkamsrækt á fullu. Ég tók matarræðið mitt í gegn og byrjaði að hugsa betur um líkamann minn. Við höfum bara þennan eina líkama og við verðum að varðveita hann á hverjum einasta degi.

Ég er ekki að segja öllum að hætta að drekka áfengi,  heldur langar mig að benda á hvað áfengi getur haft ótrúleg áhrif á líf okkar.  
Áfengi var eitur fyrir mig, bæði líkamlega og andlega. Ég notaði áfengi til að deyfa tilfinningar mínar og til að flýja mitt raunverulega líf. Ég bjó í súrrealískum heim sem hafði engin góð áhrif á mig.
 Við fáum bara þetta eina líf og þennan eina líkama til þess að hugsa um.
Við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér svo við skulum njóta dagsins í dag og vera þakklát með allt sem við höfum.
 

Namaste!

Anna 
Instagram: annasbergmann