Heimsborgarinn Eva Dögg Davíðsdóttir

21 Mar 2018

Eva Dögg Davíðsdóttir er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Hún stundar nám í viðskiptatengdri Kínversku í Háskóla Íslands en er núna í skiptinámi í Kína. „Við búum í Kína í borg sem heitir Xiamen. Þar er ég ásamt Alexander kærasta mínum í Xiamen Háskóla að læra kínversku í eitt ár. Það er partur af náminu mínu í Háskóla Íslands en þar er ég að taka BA í Viðskiptatengdri Kínversku,“ sagði Eva Dögg.


Parið er og hefur verið mjög dugleg að ferðast og nýta hvert tækifræi sem gefst. Í síðasta mánuði var vetrarfrí í skólanum og þá voru þau stödd í Filipseyjum. „Í síðasta mánuði vorum við stödd í Filippseyjum. Það var vetrarfrí í skólanum okkar í rúmlega mánuð vegna þess að Kínverjar voru að fagna nýju Kínversku ári svo að við ákváðum að skella okkur ásamt fleiri skólafélögum að skoða þetta fallega og einstaka land. Við kynntust nokkrum krökkum frá Filippseyjum í Xiamen Háskóla og þau voru svo frábær að bjóða okkur í heimsókn og kynna okkur fyrir landinu sínu,“ sagði Eva Dögg.


Þetta er ekki í fyrsta sinn sem parið dvelur í legnri tíma í Asíu og sagði Eva Dögg að það hefði verið auðveldur leikur að aðlagast nýjum menningarheimum. „Árið 2015 ferðuðumst við um suð-austur Asíu í 3 mánuði og fluttum svo til Peking í 5 mánuði, þar fórum við einnig í háskóla. Ég byrjaði að læra kínversku og Alexander var í skiptinámi á vegum Háskóla íslands að taka part af gráðuni sinni í Verkfræðilegri Eðlisfræði sem hann hefur nú lokið,“ sagði Eva Dögg.


Eva Dögg sagði að henni og Alexander liði vel í Kína og upplifun af landinu væri góð en að sjálfsögðu er allt önnur menning heldur en á Íslandi. „Í fyrstu var allt frekar erfitt, sérstaklega þar sem enginn talar ensku og siðirnir eru frekar einstakir. En maður lærir að skilja það að þetta eru þeirra hefðir hvort sem manni líkar það sem þau gera eða ekki. Kínverjar hafa verið okkur órtúlega vinalegir og hjálpsamir og vilja oftast allt fyrir mann gera þó svo að við séum bara að hitta þau í fyrsta skipti,“ sagði Eva. Maturinn er ólíkur því sem við eigum að venjast en Eva sagði að það væri ekkert mál „þegar kemur að mat þá persónulega elskum við allan asískan mat svo að það er lítið vandamál fyrir okkur. Stór galli við að búa svona langt í burtu er að vera fjarri yndislegu fjölskyldunum og vinum okkar sem við söknum alla daga,“ sagði Eva.


Síðan Eva og Alexander kynntust fyrir rúmum þremur árum hafa þau farið saman til tóf landa. „Við byrjuðum á því að fara í ósköp venjulega ferð til Danmörku að heimsækja vini okkar sem eru búsett þar. Árið 2015 ákvað Alexander að fara í skiptinám til Kína og mig langaði að fara í reisu um suð-austur Asíu svo að við fórum fyrst í reisu og heimsóttum þá 6 lönd á 3 mánuðum, Tæland, Myanmar, Indland, Malasíu, Singapore og Indonesíu. Að lokinni reisu fluttum við svo til Peking.
Í janúar 2016 fluttum við aftur til Íslands og lærðum bæði í Háskóla Íslands og þegar okkur gafst tími fórum við í nokkrar styttri ferðir svo sem til Kúbu, Hawaii og San Fransisco, Spánn og svo núna Filippseyjar,“ sagði Eva Dögg. Aðspurð úti í hvaða land eða upplifun stæði uppúr sagð Eva að hver staður hefði sinn sjarmað. „En ef ég ætti að nefna eitthvað þá þykir mér Myanmar og Kúba ótrúlega einstök lönd, þau eru enganvegin lík en hafa bæði verið frekar einangruð sem gerir menninguna og lífshætti öðruvísi. Okkur finnst Xiamen líka vera virkilega falleg og skemmtileg borg. Loftið er ómengað sem er ekki sjálfgefið fyrir kínverska stórborg og hér er sumar næstum allt árið. Ekki skemmir þá fyrir að það eru fallegar strendur við borgina. Skólinn okkar semí í sveitinni fyrir utan borgina sem við fílum í botn og okkur líður rosa vel hér,“ sagði Eva.

En er eitthvað sem þú mælir sérstaklega með fyrir fólk sem langar að ferðast í Asíu? Fyrir fólk sem langar að ferðast til Asíu eða annara heimsálfa þá er um að gera að skella sér út, fólk heldur yfirleitt að Asía sé svo hættuleg en á okkar ferðalögum hefur okkur ekkert liðið eins og við séum óörugg og aldrei verið rænd né slasast. Við reynum að gefa okkur góðan tíma á hverjum áfangastað til þess að kynnast svæðunum og menningunni betur og auðvitað verður maður alltaf að muna að njóta augnabliksins og læra að meta hvern stað fyrir sig þó svo að þeir séu ekki allir paradís, því yfirleitt er hægt að hugsa aftur til smá vesens og erfiðra tíma og gleðjast yfir minningunni.

Hægt er að fylgja Evu Dögg á instagram hérna.