Grái liturinn í stofunni minni

23 Mar 2018

Nú er ég mikið að deila myndum af heimilinu mínu á Instagram og fæ alltaf sömu fyrirspurnir (sem er allt gott og blessað). Ein af þeim sem er ofarlega á lista er: "Hvaða grái litur er á veggjunum þínum?".. - Liturinn heitir DÖGG og eins og nafnið gefur til kynna þá er þetta minn litur sem ég blandaði í samstarfi við Slippfélagið. 

Þegar við hentum okkur í smá framkvæmdir á íbúðinni þá prófaði ég ótal marga liti til að hafa í opna rýminu. Ég prófaði liti sem ég þekki mjög vel og hef unnið með áður og þar hafa þeir allir komið ótrúlega vel út. En í mínu tilfelli hérna heima í stofu þá urðu þeir allir bláir eða lillaðir, því jú birtan hérna heima er gífurleg. Ég fæ mikla endurspeglun hérna inn þar sem hinum megin við gluggana er ekkert annað en haf og blár himinn. Mikill blár blær streymir því inn til mín og allir eðlilega gráir litir voru ekki lengur gráir. Ég fékk því Slippfélagið með mér í lið og fékk aðeins að krukka í litunum undir þeirra leiðsögn. Ég hætti ekki að blanda fyrr en ég var komin með litinn sem stóðst óbreyttur sama hvaða birtustig var. Úr því varð liturinn DÖGG til.