Besti hummus sem ég hef smakkað

28 Apr 2018

Ég er ekki að ýkja, þessi uppskrift er guðdómleg!

Mér finnst lang skemmtilegast að búa til uppskriftir sjálf eða breyta þeim sem ég finn. Í þessu tilfelli fann ég uppskrift af grunni fyrir hummus og útfærði hana eftir mínu höfði.
 

Innihald
1x dós kjúklingabaunir í vatni (400g)
1/4 dl tahini
2 msk sítrónusafi
1x hvítlauksgeiri
2x paprikur (helst rauð / appelsínugul)
2 msk ólífuolía
1/2 tsk kúminfræ
1/2 tsk chilliduft
Salt & Pipar 

Ég byrjaði á því að skera paprikuna niður í litla bita og steikja uppúr olíu. Á meðan paprikan steiktist þá maukaði ég öllu saman í Nutribullet, það er líka hægt að nota matvinnsluvél eða aðra blandara. Paprikan á að vera vel steikt og mjúk í gegn, þegar hún var tilbúin þá setti ég hana í blandarann með hinu maukinu og blandaði öllu saman svo að úr varð fallegur hummus.  

Já þetta er svona einfalt .. OG bilaðslega gott. Svo gott að ég borðaði hummusinn eintómann með skeið í gær. Ég mæli svo sannarlega með þessari snilld, frábært að eiga til hummus til þess að taka fram þegar t.d. það koma gestir í heimsókn eða einfaldlega til þess að eiga sem meðlæti (í öll mál). Fróðleikur um innihaldið

Kjúklingabaunir hjálpa að viðhalda blóðsykrinum í jafnvægi. Kjúklingabaunir innihalda hátt magn af trefjum og er því afar gott fyrir meltinguna. Þær innihalda mörg nauðsynleg vítamín og steinefni, til að mynda járn, sink, fólat, fosfór og B-vítamín. Baunirnar eru góð uppspretta af plöntu próteini ásamt því að vernda gegn hjartasjúkdómum og krabbameini.

Kúminfræ örva meltingu og dregur úr uppþembu og maga- og ristilkrömpum. Rannsóknir á þeim hafa sýnt að þau lækka bæði blóðsykur og blóðfitu og vinna gegn beinþynningu.

Sesamfræ (uppistaðan af tahini) eru auðug af kalki, magnesíum, járni, zinki, B1 og kopar. Fræin innhalda trefjar sem geta hjálpað til við að lækka kólesteról og stuðlað að lægri blóðþrýstingi.Hádegismaturinn minn í dag.
Ristað sólkjarnabrauð með hummus.
Hindberjaboozt með granól. Uppskriftin af granólanu er hægt að skoða hér.

--

Njótið helgarinnar x,